136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:19]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Á öllum tímum er mikilvægt að eiga öflugt ríkisútvarp sem er sjálfstætt í fréttaumfjöllun sinni og hefur fulla burði til að sinna henni af miklum sóma. Sérstaklega er það mikilvægt nú á tímum þegar hinir svokölluðu frjálsu fjölmiðlar hafa hver af öðrum tapað trúverðugleika sínum. Fréttablaðið kastaði trúverðugleikanum út um gluggann þegar eigandi þess tók í sínar hendur að stýra því hvaða greinar birtust og lét birta grein eftir sjálfan sig sama dag og gagnrýni á hann birtist í Morgunblaðinu. Fréttablaðið er ekkert annað en áróðurssnepill eiganda síns og einskis virði sem fréttamiðill um þessar mundir.

Morgunblaðið er á miklum tímamótum og óvíst hvað verður um þann ágæta fjölmiðil gegnum marga áratugi. Útvarp Saga er frekar dæmi um það sem ber að varast en einhvers konar fjölmiðill, þannig að mjög er treyst á um þessar mundir, virðulegi forseti, að Ríkisútvarpið standi sína vakt og sinni hlutverki sínu af alvöru, óháð stjórnvöldum. Þar kemur að þætti ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum og sérstaklega menntamálaráðherra sem markvisst hefur grafið undan stöðu og styrk Ríkisútvarpsins og trúverðugleika þess sem ábyrgs fjölmiðils og mál er að þeim greftri ljúki og samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins geri flokknum ljóst að ekki verði liðið að halda áfram á sömu braut.