136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:25]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þessi umræða sýnir að mörgum hv. þingmönnum þykir vænt um Ríkisútvarpið og þannig hefur það alltaf verið, svo lengi sem ég man. Enda hefur það sýnt sig í könnunum að Ríkisútvarpið er í raun vinsælla en nokkru sinni fyrr þrátt fyrir að búið sé að breyta því í ohf. eins og var rifjað upp að var gert fyrir nokkrum missirum síðan (Gripið fram í.) og kannski þess vegna líka, það er ekki útilokað. Ég held að eftir þessar formbreytingar hafi náðst ágætisárangur og nýja formið gefur óneitanlega sveigjanleika og svo er spurning hvort sá sveigjanleiki hefur verið nýttur á skynsamlegan hátt og hvernig hann hefur verið nýttur.

Ég skal viðurkenna að mér varð ekki um sel fyrir nokkrum vikum síðan þegar fréttist að ætti að hætta með útsendingar á svæðisstöðvum og guði sé lof að hætt var við það og það ber að þakka. Eins og hér hefur komið fram er allur fjölmiðlamarkaðurinn meira og minna í rúst og það er umræðuefni sem hefur verið til meðferðar í ákveðinni nefnd sem hæstv. menntamálaráðherra skipaði og við eigum von á frumvarpi inn í þingið á næstu dögum sem varðar Ríkisútvarpið. Mín skoðun er sú að draga eigi úr forskoti Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég held að ekki verði hjá því komist og tel að það sé eitt af því sem þingið þurfi að fjalla um á næstu dögum og vikum og vil leggja áherslu á mikilvægi þess að vandlega verði farið yfir þá vinnu á hv. Alþingi.

Svo vil ég segja að síðustu, hæstv. forseti, að í þessum samdráttartillögum sem eru að koma fram vona ég að Rás 1 fái að lifa áfram því hún er eins konar samnefnari okkar Íslendinga á þessum erfiðu tímum.