136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Ég held að það sé alveg ljóst að við hér í þessum sal berum auðvitað ábyrgð á því að Ríkisútvarpið lifi og dafni vel. Þetta er jú útvarp í eigu almennings.

Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra segist vera reiðubúin að skoða það að aflétta lífeyrisskuldbindingum RÚV með einhverjum hætti og að ef ráðist verði í takmarkanir á auglýsingamarkaði muni koma tekjur á móti.

Hins vegar sýnist mér að það þurfi að bæta starfshættina á RÚV og ég er enn efins um að sú breyting sem ráðist var í á rekstrarformi hafi gefist vel. Mér þykir núverandi ástand sem ég fór yfir hér áðan með launaleynd, órökstuddum niðurskurðarákvörðunum, órökstuddum brottrekstrum og ráðningum sýna að það þarf að endurskoða heila málið, hvort hreinlega eigi að breyta Ríkisútvarpinu aftur í hefðbundna ríkisstofnun eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi áðan eða að minnsta kosti að endurskoða starfshætti og reglur innan útvarpsins. Þó að þetta félag sé núna það sem við köllum opinbert hlutafélag finnst mér það lykilatriði að almannaútvarp, ríkisútvarp, lúti almennum reglum um upplýsingagjöf og gagnsæi, að öllum séu ljósar ástæður og forsendur þeirra ákvarðana sem þar eru teknar, að stofnunin búi við eðlilegt rekstraröryggi og almenningi öllum sé ljóst hvernig staðið er að rekstrarmálum innan stofnunarinnar. Ég tel að það séu lykilatriði þegar við horfum á starfshætti Ríkisútvarpsins að þeir séu gagnsæir og öllum kunnir.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér sýnist hún benda til þess að ýmsir í þessum sal telji ástæðu til að endurskoða stöðu Ríkisútvarpsins, rekstrarform þess og hlutverk.