136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:53]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma í andsvör og upplýsa að hann hyggist þrengja heimildirnar. En enn hefur hæstv. ráðherra ekki upplýst hversu víðtækar undanþágur hann hyggist veita, enn er það óljóst. Hvernig verða reglugerðirnar sem hann hyggst setja á grundvelli undanþáguheimildanna? Hér er um að ræða, sem ég gagnrýndi, framsal löggjafarvalds, það er opinn tékki til framkvæmdarvaldsins um atriði sem þingið ætti að taka afstöðu til. Ég tel að það eigi að þrengja þetta eins og kostur er, a.m.k. tímabundið á meðan við göngum gegnum þær hremmingar sem fram undan eru, næstu 2–4 árin. Og ég sé engan tilgang í því að flytja fisk út til Bretlands sem beitir okkur hryðjuverkalöggjöf.

Það er eitt líka í þessu frumvarpi sem er til þess fallið að hrekja menn út af markaðnum, frá því að bjóða í, og það eru ákvæðin um lágmarksverð. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann standi fast á því að halda uppi ákveðnu lágmarksverði.