136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að lagatextinn sjálfur eins og hann birtist í frumvarpinu og kemur til afgreiðslu þingsins sé mjög skýr að þessu leyti. Hér er verið að segja það nákvæmlega að aðili sem vill fá að flytja fiskinn óunninn úr landi og hefur þar með heimild til þess samkvæmt lögum — hann hefur í rauninni þær heimildir í dag samkvæmt gildandi lögum — verður að tilkynna það 24 klukkustundum áður til að fá þá heimild. Hann verður að láta upplýsingar um fiskinn fara um tilboðsmarkað sem gerir það að verkum að fiskverkendur geta haft tækifæri til að bjóða í fiskinn. Þetta er gríðarlega mikil þrenging frá því sem áður hefur verið enda var tilgangurinn með frumvarpinu og þeirri vinnu sem lá að baki því nákvæmlega sá að reyna að tryggja að fiskvinnslan ætti núna rýmri möguleika á því að bjóða í fiskinn en áður. Kvartað hafði verið undan því, bæði fyrir og eftir afnám útflutningsálagsins, að fiskvinnslan ætti ekki þennan möguleika og gæti þess vegna ekki staðið jafnfætis fiskvinnslu í öðrum löndum. Og eftir að hafa legið vel yfir þessu og skoðað þetta frá ýmsum sjónarhornum hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast sé að gera það með því að opna þessa leið inn á tilboðsmarkað þannig að fiskverkendur á Íslandi hafi jafnan aðgang.

Varðandi lágmarksverðið þá varð þetta einfaldlega niðurstaðan í þeirri vinnu sem fram fór. Ég veit að um þetta voru skiptar skoðanir, sérstaklega hafa útgerðarmenn fundið að þessu en þetta varð niðurstaðan og ég sé að meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur komist að sömu niðurstöðu, að það væri skynsamlegast að hafa lágmarksverð þarna inni og ég tel einfaldlega skynsamlegast að láta reyna á það eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.