136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:57]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég ekki hvenær þetta frumvarp var samið í ráðuneytinu en mig grunar að það hafi gerst fyrir efnahagshrunið og þær miklu hremmingar sem við stöndum frammi fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að forsendur fyrir því séu brostnar í því mikla atvinnuleysi sem við blasir og það eigi hreinlega að leggja til í dag að allur fiskur verði unninn innan lands, nánast allur nema sérstakar aðstæður mæli með útflutningi og hafa þær þá mjög verulega þröngar.

Ég er ósammála hæstv. ráðherra að lagatextinn sé skýr. Þetta er gersamlega opinn tékki, þetta er framsal löggjafarvalds þar sem meginreglan er sú að landa á fiski innan lands og vigta hann hér. Til hvers er þá verið að mæla fyrir um það að veita megi undanþágu frá því að hann sé veginn hér á landi? (Sjútv.- og landbrh.: Með gildandi lögum.) Ég átta mig ekki á því fyrst hann kemur allur í íslenska höfn. Það er mér óskiljanlegt. Það eru sterk rök sem sjómenn og aðrir færa fyrir því að lágmarksverðið muni hrekja menn út af markaðnum. Ef til vill verður komið inn á það betur í umræðum um frumvarpið en staðan er þannig að við ættum að tryggja, herra forseti, að allur afli yrði unninn innan lands í hvernig vinnslu sem það er, hvort það er beint inn í kjörbúðir eða hvort hann er framunninn meira.