136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi einnig bregðast aðeins við ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Ég tel ástæðu til að leggja áherslu á það sem kom fram í andsvari hæstv. ráðherra að nú þegar eru sams konar heimildir til að flytja út óvigtaðan fisk í gildandi lögum. Hér er verið að herða þær reglur og þær heimildir með því að kveða skýrt á um það að bjóða þurfi allan fisk upp á innlendum uppboðsmarkaði með tilteknum fyrirvara. Auðvitað er markmiðið með því að auka fisk til innlendrar fiskvinnslu.

Þær tillögur sem hér eru byggjast á vinnu starfshóps sem ágætlega var farið yfir í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þar var einmitt bent á að með nútímatækni á uppboðsmörkuðum, svokölluðu fjölneti, væri góður möguleiki að gera þetta. Ég tel mjög mikilsvert að þetta komist inn í lögin. Það hefur ekkert komið fram um það, eins og hér hefur verið ýjað að, að ráðherra muni beita þessum reglugerðarheimildum öðruvísi en gert er ráð fyrir hér. (Gripið fram í.) Þetta er bara eins og í núverandi lögum, það er heimilt að flytja út óvigtaðan afla og eins og hv. þingmaður veit (Forseti hringir.) snýr þetta líka að betri meðferð aflans, að ekki sé verið að rífa hann upp til að vigta hann hér á landi áður en hann er fluttur út og það skiptir máli varðandi verðmæti hans.