136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er töluvert til í því að ágætt væri að hafa reglugerðina tilbúna en ég held að hún skipti í rauninni ekki meginmáli hér. Það sem skiptir máli er að núna gefist tími fyrir þá sem munu bjóða upp sinn fisk, fyrir fiskkaupendur og fiskmarkaðina sjálfa, til þess að fara yfir vinnuferlið og hvernig þessi framkvæmd á að vera. Þess vegna breyttum við gildistökunni til 1. febrúar þannig að þeir sem að málinu koma geti sniðið af alla hnökra í þessari framkvæmd. Ég held að það sé eitt af því sem ráðherra þarf að taka tillit til þegar reglugerðin verður smíðuð, hvort þarna séu einhver atriði sem menn hafa ekki séð fyrir.

Okkur var sagt frá því í nefndinni að tilraunakeyrsla hefði verið einu sinni þar sem allir aðilar komu að. Þá var boðið upp á fjölnetinu með ágætum árangri. Það tókst að vísu ágætlega en mat þeirra sem að þessu koma er að í fyrsta lagi þurfi að kynna þetta mjög vel fyrir öllum aðilum, útgerðaraðilum, fiskverkendum og fiskmörkuðum. Ef fram koma einhverjir ágallar á framkvæmdinni er þá hægt að sníða þá af áður en lögin taka í rauninni gildi. Þarna er um mikið samstarfsverkefni að ræða og ég held (Forseti hringir.) að ágætissamstaða sé um að það verði gert.