136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom víða við í yfirgripsmikilli ræðu sinni sem ég þakka honum fyrir. Meginspurningin, held ég, í ræðu hans og tilefni þess að hann tekur hér til máls er spurningin um samráð milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar, aðila vinnumarkaðarins, ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna.

Ég vil segja það að ég legg mikið upp úr slíku samráði og reynslan kennir okkur að slíkt samráð er eingöngu til góðs og getur ekki orðið til annars. Þess vegna höfum við í ríkisstjórninni lagt áherslu á slíkt samráð þó að ekki hafi verið fastir fundardagar í því ferli. Við áttum t.d. fund 28. nóvember, fulltrúar ríkisstjórnarinnar, aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar allra stéttarfélagasamtakanna og sveitarfélaganna, þar sem farið var yfir stöðuna í kjaramálum og líklega framvindu í þeim efnum á næstunni. Í dag höfum við einnig haldið fundi með ASÍ og SA og ráðgerum annan fund síðar í dag með öðrum samtökum stéttarfélaga til að ræða horfur í ríkisfjármálum. Við teljum mikilvægt að við þessi samtök öll sé gott og gjöfult samráð, samráð sem getur skilað árangri, og það er ekki síst mikilvægt núna þegar við búum á svo óvissum tímum sem raun ber vitni.

Við höfum gengið hér í gegnum gríðarlega mikla efnahagserfiðleika eftir fall bankanna og erum núna u.þ.b. að sjá í gegnum það þykkni allt þegar heita má að fyrsta áfanga endurreisnarstarfsins vegna þessa fjármálaáfalls sé lokið. Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og önnur atriði sem því tengjast, samkomulag um lánafyrirgreiðslu, er í höfn og ýmis önnur atriði eru að komast í eðlilegan farveg. Það má segja að í öðrum áfanga sé mikilvægt að fylgja eftir þeim þremur meginþáttum samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem snúa í fyrsta lagi að endurreisn bankakerfisins og uppgjöri gömlu bankanna, í öðru lagi að stöðu opinberra fjármála og í þriðja lagi að peninga- og gengismálum. Það er vissulega ánægjulegt að sjá með hvaða hætti gjaldeyrismarkaðurinn fer af stað eftir að krónunni var fleytt, eins og það er kallað, því að hún hefur styrkst um u.þ.b. 25% á þremur viðskiptadögum þótt hún hafi aðeins veikst í dag miðað við nýjustu fréttir.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi tek ég undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að gera allt sem hægt er til að sporna gegn atvinnuleysi og nýta öll tækifæri sem í landinu finnast til að skapa atvinnu og verðmæti. Við eigum öll hér í þingsalnum að snúa bökum saman í því efni. Það á þess vegna að skoða allar hugmyndir og allar tillögur, hvort sem þær lúta að breytingum í sjávarútvegi, uppbyggingu orkufreks iðnaðar eða öðru slíku sem skapað gæti auð og vinnu.

Ég get ekki svarað því nákvæmlega hvað er á döfinni hjá einstökum fyrirtækjum en auðvitað höfum við áhuga á því í ríkisstjórninni að stuðla að því að hér geti risið netþjónabú eða kísilflöguverksmiðjur svo ég nefni dæmi úr ræðu hv. þingmanns. Mannaflsfrekar framkvæmdir eru áhugamál bæði ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins og þá á ég við framkvæmdirnar sjálfar og einnig undirbúning þeirra sem kallar á sérhæfða vinnu hönnuða, bæði arkitekta og verkfræðinga. Allt skiptir þetta máli þegar svo erfitt ástand er á atvinnumarkaði sem nú hefur skapast, að ég tali ekki um tækifærin sem felast í ferðaþjónustunni og hv. þingmaður vék að í sínu máli.

Við gerum okkur vonir um að verðbólgan geti gengið hratt niður nú þegar krónan er að ná viðspyrnu á gjaldeyrismarkaðnum. Við sjáum hvernig eldsneytisverðið hefur lækkað stórfellt með gríðarlegum sparnaði fyrir heimilin, fyrirtækin, ferðaþjónustuna og ýmsa aðra og það má gera ráð fyrir því að verðlag á innflutningi að öðru leyti muni brátt fylgja í kjölfarið. Þar með verður mjög lítill verðbólguþrýstingur á Íslandi. Við treystum því að verðbólgan geti þá gengið hratt niður og þar með þau neikvæðu áhrif sem hún hefur á það fólk sem er skuldsett og skuldar verðtryggð lán. Allt hangir þetta saman en samráðið sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni er vissulega (Forseti hringir.) gríðarlega mikilvægt.