136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var öllum ljóst sem með því fylgdust fyrstu 12–15 mánuði þessa kjörtímabils að ríkisstjórnin lifði í einhverjum eigin draumaheimi og var lítt tengd við veruleikann. Á þeim tíma var iðulega kvartað undan því, sérstaklega af verkalýðshreyfingunni, að þar fengju menn ekki samráð við ríkisstjórnina og þá sjaldan til slíks var efnt var það innihaldslaust eins og yfirlýsingar ýmissa forustumanna verkalýðshreyfingarinnar í sumar og haust báru með sér og eru til vitnis um.

Horfur í atvinnumálum eru grafalvarlegar, nú þegar eru 8.000 manns eða rúmlega það á atvinnuleysisskrá og atvinnuleysið ört vaxandi. Það er auðvitað mjög undarlegt að ríkisstjórn í jafnmiklum erfiðleikum og raun ber vitni skuli hafa afþakkað til að mynda myndun þjóðstjórnar á haustdögum og skuli ekki hafa náð upp neinu samstarfsandrúmslofti í samfélaginu. Þjóðarsáttin var mikil gæfa á sínum tíma — og um hvað snerist hún umfram allt annað? Jú, að ná niður verðbólgunni og það tókst árið 1990. Það er árangur þjóðarsáttarinnar sem nú hefur glatast í höndum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Endurmótunar- og uppbyggingarverkefnið í íslensku samfélagi og íslensku þjóðarbúi er óviðráðanlegt, það er óleysanlegt nema það takist á nýjan leik að fylkja þjóðinni saman og sameina kraftana. Það þarf víðtækt þjóðarsamstarf um þetta verkefni og þar þurfa fleiri að koma að en bara samtök atvinnurekenda og samtök allra launamanna. Þar þarf að vinna með Bændasamtökunum, félagsmálasamtökum og fjöldahreyfingum, virkja þær, og það þarf ekki síst að vinna með sveitarfélögunum. Þar hefur stórkostlegur misbrestur orðið á, samanber t.d. það að sveitarfélögin voru ekki höfð með í ráðum þegar gengið var frá samningunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og varðar hann þau þó miklu og hefur bein áhrif á tekjur þeirra sem hluta af hinu opinbera eins og skilmálarnir bera með sér. (Forseti hringir.) Hæstv. ríkisstjórn er því miður í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum ekki að vinna vinnuna sína.