136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu um aðkomu aðila vinnumarkaðarins að lausnum í sambandi við atvinnulífið og deili áhyggjum frummælanda af atvinnuleysinu, vaxandi atvinnuleysi og hugsanlegum afleiðingum þess á m.a. velferðarkerfið. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt, og það kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar að hann horfði til lausna, hann kom með vangaveltur um það hvað mætti verða til þess að auka hér atvinnu, hvort sem væri að auka útflutning eða efla innanlandsmarkaðinn til þess að minnka innflutninginn. Ég tek undir að það er akkúrat sú nálgun sem við þurfum að menn fari að líta til lausna í stað þessa að horfa aðeins á vandræði dagsins í dag.

Það er auðvitað þannig, eins og kom fram í ræðu hans, að það á ekkert að undanskilja, það á að horfa til allra mögulegra lausna. Það er hægt að horfa til hvort sem er sjávarútvegs eða stóriðju, þetta verða menn að skoða hreinskilnislega og meta hvað kemur okkur mest að gagni. Dæmi um slíkt er að nú eigum við orðið ýmis fyrirtæki, sem hafa ekki verið í ríkiseigu áður, í gegnum bankana. Dæmi um það eru steypustöðvar sem m.a. eru að flytja erlent sement inn á íslenska markaðinn þar sem er mikil framleiðslugeta fyrir. Þannig gætum við sparað stórpening. Þar á ég við Steypustöðina Mest sem er í eigu Glitnis og er mér kunnugt um að Akurnesingarnir gætu vel keppt í verði við innflytjendur ef þeir fengju að framleiða til þessarar steypustöðvar.

Ég tek undir þær skoðanir sem hafa komið hér fram, að það er mikilvægt að draga alla aðila að borðinu, þ.e. aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og Samtök atvinnulífsins, Bændasamtökin og önnur opinber stéttarfélög, sveitarfélög og raunar ýmsa áhugahópa. Við getum haft þarna sem dæmi gott frumkvæði Bjarkar Guðmundsdóttur og þeirra félaga í sambandi við tillögugerð í atvinnumálum. Það á að nýta allar þessar tillögur, sprotafyrirtæki, ferðaþjónustu o.s.frv. til að leita leiða til þess að koma okkur út úr þessum vanda. Það er einmitt sú samstaða (Forseti hringir.) sem við þurfum á að halda núna í baráttunni næstu mánuðina.