136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:46]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu efni en mig langar ekki í dag að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað hann sjái fyrir sér, eða ríkisstjórnin. Mig langar að minna á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er talað um víðtæka sátt, það er talað um samstarf við alla flokka á Alþingi, það er talað um markvissan ríkisrekstur, jafnrétti í reynd og samráð á milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir og langtímamarkmið á sviði efnahags-, atvinnu- og félagsmála. Þess vegna hefur verið virkilega undarlegt að horfa upp á þær miklu hamfarir sem dunið hafa yfir þjóðina síðustu tvo mánuðina þar sem hefði þurft að kalla til slökkvilið, sjúkralið, lögreglu, rústabjörgunarteymi, björgunarsveitir, leitarhunda, áfallahjálparteymi og hafa mikinn viðbúnað á heilbrigðisstofnunum en þess í stað standa örfáir slökkviliðsstjórar og krafsa í brakið með gamlan smalahund úr Seðlabankanum sér við hlið. Sjúkraliðinu er haldið fyrir utan girðinguna með norskri öryggisgæslu og löggan er á rúntinum.

Vissulega hefur margt breyst frá því að ríkisstjórnarsáttmálinn var gerður en ef einhvern tíma var þörf á samráði og samvinnu við þá hagsmunaaðila sem mæla fyrir munn þeirra sem gefa stjórnmálamönnunum sitt umboð er það núna, og ekki seinna en strax. Ríkisstjórnin er einangruð, hún situr með verkefni í fanginu sem hún kemst ekki yfir og mun valda meiri skaða en nú þegar er orðinn með sama áframhaldi. Henni ber að taka tillit til og hafa eðlilegt samráð við þá sem réttilega fara með hagsmuni þjóðarinnar, henni ber að hleypa fleirum að borðinu til að finna bestu lausnirnar fyrir fólkið í landinu. Hér situr stór hópur vel menntaðra þingmanna með mikla reynslu, hópur sem tilheyrir bæði stjórn og stjórnarandstöðu og er tilbúinn til að búa til störf, hefja framleiðslu á verðmætum og taka í höndina á þeim sem virkilega þurfa á því að halda og leiða þá á meðan þess gerist þörf.

Ég bið hæstv. forsætisráðherra að sýna djörfung. Hleyptu okkur inn, (Forseti hringir.) hlustaðu á okkur og leyfðu (Forseti hringir.) okkur að taka þátt.