136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:48]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Atvinnuleysið er það versta sem við fáum yfir okkur. Það versta sem fylgir þessari kreppu sem við erum í núna er atvinnuleysi, og aukið atvinnuleysi á næstu mánuðum mun gera okkur sem þjóð lífið mjög erfitt. Það er engin spurning um það og það er enn og aftur atvinnuleysið sem verður okkur verst. Þess vegna þurfum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það er dálítið skrýtið að sjá ríkisfyrirtæki segja fólki upp, þau draga ekki saman vinnu hjá fólki um 10% eða 20% og reyna að hafa sem flesta í vinnu heldur segja þau fólki upp, reka það út á guð og gaddinn.

Það er ýmsar leiðir hægt að fara í þessum málum. Við í Frjálslynda flokknum höfum verið að benda á leiðir sem er hægt að nota, búa til meiri gjaldeyri, skapa meiri vinnu og þá er ég að tala um í sambandi við að auka við kvóta flestra tegunda, sérstaklega í þorski og síld. Við viljum hefja hvalveiðar, þær skapa 200 manns atvinnu og gjaldeyristekjur fyrir þjóðina. Við viljum líka fara í virkjanir en til þess að hægt sé að fara í virkjanir er mjög líklegt að það þurfi að fá ríkisábyrgð á fjármagn — ef ríkið er einhvers staðar talið hæft til að ábyrgjast peninga — fyrir fyrirtæki eins og Landsvirkjun, Hitaveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur og jafnvel einhver fleiri sem vilja fara í virkjanir. Við þurfum að bæta við og gera eitthvað í sambandi við ferðaþjónustuna.

Síðast en ekki síst minni ég á það að við þurfum að koma á laggirnar hönnunarsjóði fyrir arkitekta og verkfræðinga sem hanni verkefni inn í framtíðina sem verður hægt að hefjast (Forseti hringir.) handa við þegar betri tímar renna upp.