136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:57]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og þau svör sem hafa verið gefin. Ég met það svo af orðum hæstv. forsætisráðherra að hann hafi fullan vilja til þess að leita aukins samráðs en ég met það einnig svo, hæstv. forseti, að kannski hafi skort á að slíkt samráð hafi verið nægjanlegt hingað til.

Eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra voru menn í dag m.a. að ræða við fulltrúa vinnumarkaðarins um stöðuna í ríkisfjármálum. Við vitum auðvitað að hún er erfið og það verður ekki auðvelt að koma saman fjármálum ríkisins. Allt að einu skiptir verulega miklu máli að einmitt ríkið og sveitarfélögin hafi stöðu til þess með einhverjum hætti, þó að skuldsett geti orðið, að taka stöðu með aðilum á vinnumarkaði í því að halda uppi atvinnu í landinu. Það skiptir afar miklu máli, hæstv. forseti.

Það skiptir líka verulegu máli, hæstv. forseti, að litið sé til hinna smærri fyrirtækja sem eru oft og tíðum þeir vaxtarbroddar sem við byggjum á í framtíðinni og það þarf sérstaklega að huga að stuðningi við smærri fyrirtæki og smærri framleiðendur til þess að þeir geti haldið velli í þeim hremmingum sem við erum að ganga í gegnum en að við lítum ekki eingöngu til stærri fyrirtækja.

Ég hef þá trú, hæstv. forseti, að í ferðaþjónustunni felist miklir vaxtarbroddar í framtíðinni og það sé rétt að styðja þar við með öllum tiltækum ráðum. Það er algjörlega ljóst, eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði hér áðan, að atvinnuleysið er versti kosturinn sem við getum lent í. Við megum alls ekki við því að dýpka það atvinnuleysi sem við getum lent í, við þurfum akkúrat að vinna gegn því með öllum tiltækum ráðum og ég treysti því að hæstv. forsætisráðherra meini það (Forseti hringir.) að hann hlusti á ráð annarra í þeim efnum, jafnt okkar í Frjálslynda flokknum (Forseti hringir.) sem annarra þingmanna hér í þessum sal.