136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:59]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er hlustað á öll góð ráð í þessum efnum, sama hvaðan þau koma.

Ég held að það sé sammerkt með þeim sem tekið hafa til máls hér í þessum umræðum að allir hafa miklar áhyggjur af því atvinnuleysi sem nú virðist vera í uppsiglingu og allir gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvílir á þinginu í því efni en auðvitað fyrst og fremst á ríkisstjórninni og svo aðilum vinnumarkaðarins og atvinnufyrirtækjunum. Það þarf að búa þeim þannig aðstæður að síður komi til uppsagna og að þeir sem hafa vinnu haldi henni en að ný störf séu sköpuð fyrir þá sem missa vinnuna. Það er risavaxið verkefni þegar margt sérhæft fólk missir störfin sín í kjölfarið á bankakreppunni og í kjölfar þeirra erfiðleika sem sú staða hefur skapað fyrir atvinnulífið almennt í landinu. Ríkisstjórnin gerir hvað hún getur til þess að sporna gegn þeirri aukningu atvinnuleysis sem í uppsiglingu er en það er ekki alltaf einfalt mál.

Ég tek undir það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði um orkumálin og nauðsyn þess að halda áfram uppbyggingu í þeim efnum. Ég tek eindregið undir það, og hef gert áður í haust, að við eigum að nota allar okkar auðlindir, þar með talið orkuna, til þess að skapa hér vinnu og verðmæti. Staðan er hins vegar þannig með sum þau verkefni sem nefnd hafa verið í því efni að slík verkefni eru líka að hluta til orðin fórnarlömb hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu. Þau fyrirtæki sem hafa sýnt einna mestan áhuga á því að hasla sér hér völl með nýfjárfestingum eru líka lent í erfiðleikum vegna þess að kreppan sem við höfum orðið fyrir barðinu á er ekki einkamál okkar, hún blasir við um allan heim og birtist jafnvel stærstu fyrirtækjum eins og nú er komið í ljós.

En að því marki sem við höfum tækifæri og möguleika sjálf til að nýta orkuna okkar í samstarfi við aðra eða upp á eigin spýtur eigum við að sjálfsögðu að gera það.