136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:08]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að nú sé ástæða til þess fyrir hv. alþingismenn að staldra aðeins við og ræða við ríkisstjórnina um framgang þingmála á þessu hausti. Vissulega er það ljóst eins og allir þingmenn vita að hér hefur verið afbrigðilegt ástand í efnahagsmálum eftir að bankarnir féllu í byrjun október og því oft ástæða til þess að afgreiða löggjöf með hraði til að bregðast við þeim aðstæðum. Ég hef staðið að því og mun gera það áfram þegar í hlut eiga þingmál sem eru þannig vaxin að ég tel að þurfi skjóta framgöngu á Alþingi til að bregðast við erfiðum aðstæðum.

En mér hefur fundist að þessi þróun mála hafi farið versnandi og breiðst út til mála sem eiga ekkert skylt við það ástand sem við höfum búið við síðan í október og er rökstuðningur fyrir afbrigðilegri málsmeðferð hér í þinginu. Það nær til ýmissa þingmála sem hér hafa verið lögð fram, bæði framlagningu þeirra, fyrirtöku á þingfundi, meðferð þeirra á þingfundum og síðan í úrvinnslu þeirra þegar málin eru komin úr þingnefndum.

Ég fellst ekki á að það mál sem um er að ræða sé þannig vaxið að það þurfti nein sérstök afbrigði til að ræða það. Þingið hefur sett sér reglur um hvernig mál fara hér fram. Þær meginreglur ganga út frá því að tími gefist til að skoða málin áður en umræða fer fram og að þjóðinni gefist tími til að frétta af málunum og kynna sér þau áður en umræða fer fram. Þess vegna er meginreglan sú að mál eru ekki rædd fyrr en í fyrsta lagi degi eftir að þingskjölum er útbýtt.

Þegar vikið er frá þessu eru þingmenn sviptir tækifæri til þess að kynna sér málið og það gerir umræðuna lakari. Jafnframt er þjóðin svipt tækifæri til að heyra um málin, að þau hafi verið lögð fram, og missir jafnvel af umræðu því að henni er lokið þegar menn fá loks að vita af því að málin eru komin fram.

Hér er settur nýr fundur og dregin inn á þann fund níu mál sem fæst eru þess eðlis að nokkur ástæða er til að taka á dagskrá með afbrigðilegum hætti. Það mál sem hér er um að ræða og hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir getur út af fyrir sig verið hið þarfasta mál til að setja nauðsynlega lagastoð og marka stefnu til þess að nýta þá auðlind sem kann að vera innan íslenskrar efnahagslögsögu. Ég er tiltölulega jákvæður gagnvart því að kanna möguleikana á nýtingunni og er tilbúinn að vinna að því að setja löggjöf um það efni.

En ég fellst ekki á að ákvörðun ráðherra um fyrirhugað útboð í janúar geri það að verkum að þingið verður að vera hér í blóðspreng að ræða málið. Þingmenn geta hvorki undirbúið sig né sent málið til umsagnar aðila sem hugsanlega ættu að veita ráðgjöf í þessum efnum og gera það að lögum á örfáum dögum eins og ætlast er til.

Ég segi bara, virðulegi forseti, að það er ekki boðlegt. Það er bara engin ástæða til. Það er hætta á því þegar menn ganga inn á þessa braut að afbrigðið verði að reglu og að reglunni sé vikið til hliðar. Afbrigðið festist í sessi sem regla í málum sem það á ekkert við. Sú hætta er sérstaklega mikil þegar stjórnarflokkarnir eru svo fjölmennir að þeir hafa nægan meiri hluta einir og sér til að veita sér öll þau afbrigði sem þeir kjósa.

Mér sýnist það vera tilhneigingin hjá ráðherranum að líta þannig á málin að þau eigi að koma seint fram og fara hratt í gegnum þingið, helst sem minnst skoðuð og rædd. Ég mótmæli þessu, virðulegi forseti.