136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

virðisaukaskattur.

211. mál
[16:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lögin sem kveður á um að á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins september til október 2008 sé heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins, þó svo einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, samanber nýsamþykkt lög nr. 130/2008, um breytingu á tollalögum.

Með þessari tímabundnu breytingu er komið til móts við aðkallandi vanda fyrirtækja vegna gjalddaga virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið september til október, en sá gjalddagi var þann 5. desember 2008. Með ákvæðinu er verið að bregðast við brýnni þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna þess gengisfalls, samdráttar og verðbólgu sem ríkir í íslensku efnahagslífi um þessar mundir.

Að óbreyttum lögum er þeim aðilum sem notfært hafa sér frestsheimildir á grundvelli laga nr. 130/2008 einungis heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu þann hluta virðisaukaskatts vegna innflutnings sem greiddur hefur verið fyrir gjalddaga. Með frumvarpinu er verið að bregðast við þessari stöðu og tryggja að aðili sem stendur skil á virðisaukaskatti á gjalddaga 5. desember 2008 geti að fullu notið innskattsréttar vegna uppgjörstímabilsins, þrátt fyrir tímabundnar breytingar á fyrirkomulagi gjalddaga á aðflutningsgjöldum.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að fyrirtæki geti fengið heimild hjá skattstjóra til þess að nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil ef útskattur er að jafnaði lægri en innskattur. Fyrirtæki sem að svo háttar til hjá hafa á tíðum mikla fjármuni bundna í virðisaukaskatti og hefur sú binding aukist eftir að hið lægra þrep virðisaukaskatts var lækkað úr 14% í 7%. Til að koma til móts við fyrirtæki sem kaupa vörur eða þjónustu með 24,5% virðisaukaskatti en selja afurðir sínar með 7% virðisaukaskatti er þessi breyting lögð til. Dæmi um fyrirtæki sem ákvæðinu er ætlað að ná til eru mjólkurframleiðendur en þeir kaupa ógerilsneydda mjólk í hærra þrepinu en selja afurðir sínar í hinu lægra.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.