136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[16:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 47/2006, um kjararáð.

Frumvarp þetta er lagt fram í ljósi alvarlegrar stöðu efnahagsmála, fyrirsjáanlegrar skerðingar ríkistekna og framtíðaráætlana í þjóðarbúskapnum. Með frumvarpinu er í fyrsta lagi mælt fyrir um að kjararáð skuli taka nýja ákvörðun fyrir árslok er feli í sér 5% til 15% launalækkun alþingismanna og ráðherra. Lagt er til að óheimilt verði að endurskoða þann úrskurð til hækkunar út árið 2009. Ákvæði þessu er því ætlað að gilda tímabundið og að því búnu getur kjararáð að nýju fellt úrskurð um þann hóp sem frumvarpið nær til, að teknu tilliti til kjara hjá viðmiðunarhópum eins og þau verða á þeim tíma.

Í öðru lagi mælir frumvarpið fyrir um að kjararáð skuli svo fljótt sem auðið er kveða upp nýjan úrskurð um aðra sem undir ráðið heyra til samræmis við þá launalækkun sem ákvörðuð hafi verið til handa alþingismönnum og ráðherrum. Kjararáði er eftirlátið svigrúm til að útfæra þá ákvörðun. Við mat á þessu má gera ráð fyrir að kjararáð líti bæði til ákvörðunar varðandi alþingismenn og ráðherra og launaþróunar hjá viðmiðunarhópum að því marki sem hún liggur fyrir í samræmi við ákvæði laga nr. 47/2006.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að kjararáð taki við ákvörðun sína tillit til stjórnskipulegrar sérstöðu dómara en rétt er að taka fram að grunnreglur um sjálfstæði dómsvaldsins, sbr. 2. og 70. gr. stjórnarskrárinnar, koma ekki í veg fyrir að kjararáð geti á grundvelli lagabreytingarinnar kveðið á um launalækkun dómara enda sé hún í samræmi við það sem aðrir þeir er heyra undir úrskurðarvald ráðsins þurfa að sæta.

Í þriðja lagi er kveðið á um það í lokamálslið bráðabirgðaákvæðisins að það taki ekki til forseta Íslands. Helgast það af ákvæði 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að óheimilt skuli að lækka greiðslur af ríkisfé til forseta kjörtímabil hans.

Með frumvarpinu er því tímabundið, með vísan til núverandi ástands efnahagsmála, verið að lækka laun þeirra, sem hæstu launin hafa. Kjararáði er hins vegar eftirlátið svigrúm til að útfæra nákvæmlega í ákvörðun hvernig því markmiði verði náð. Mælt er fyrir um það í frumvarpinu að kjararáð skuli kveða upp úrskurðinn fyrir árslok 2008 og er gert ráð fyrir að hann taki gildi frá ársbyrjun 2009. Einnig er mælt fyrir um það að ekki megi endurskoða þennan úrskurð til hækkunar út árið 2009, en eins og orðalagið ber með sér yrði þá heimilt að endurskoða hann til lækkunar, til dæmis ef í ljós kæmi að viðmiðunarhópar lækkuðu enn meira en sem nemur úrskurði ráðsins.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.