136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[18:18]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að inna hv. formann allsherjarnefndar eftir því hvort sérstaklega hafi komið til umræðu í nefndinni staða hins sérstaka saksóknara, hvort það er rétt skilið hjá mér að honum sé í raun ætlað að vera eins konar undirmaður ríkissaksóknara. Í dómstólaskipan er gert ráð fyrir þremur þrepum, ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og ríkislögreglustjóra. Ég spyr: Hvar er hinum sérstaka saksóknara skipað niður í þeirri dómstólaskipan? Ég spyr vegna þess að það er spurning hver staða embættisins er gagnvart öðrum embættum í landinu og það er auðvitað líka spurning um laun og hvaðan hægt er að fá menn í starf sem þetta. En ég fagna sérstaklega þeim breytingum sem koma frá nefndinni og lúta m.a. að því að það er haft samráð við hv. allsherjarnefnd um það hvernig verður ráðið til þessa starfs.