136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða sérstakt embætti saksóknara sem er hugsað þannig að það sé hliðstætt embættum héraðssaksóknara eftir að ákvæði sakamálalaga um það efni koma til framkvæmda. Embættið á að starfa sjálfstætt en um ákveðin atriði þarf að leita til ríkissaksóknara þó að það lúti ekki boðvaldi hans. Embættið verður sem sagt undir eftirliti ríkissaksóknara og í ákveðnum tilvikum getur saksóknari þurft að leita til ríkissaksóknara varðandi t.d. úrskurð um hvort ákveðin verkefni eigi að falla til þessa embættis eða annarra embætta. Í þessari skipan er hugsunin sú að embættið verði sem líkast embætti héraðssaksóknara miðað við lög um meðferð sakamála en eins og kunnugt er verður að öllum líkindum bið á því að héraðssaksóknaraembættin taki til starfa. Greint hefur verið frá tillögum um að það gerist ekki nú um næstu áramót þegar lög um sakamál taka almennt gildi heldur ári síðar. En hugsunin er sem sagt sú að embættið verði á þeim stað í kerfinu.