136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[18:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið án fyrirvara þannig að ég er samþykk því sem þar stendur og tel að vinna nefndarinnar hafi verið góð undir forustu Birgis Ármannssonar formanns. Við héldum nokkra fundi og buðum gestum til okkar og fengum gögn, eins og vera ber. Mig langar til að koma inn á nokkur mál sem voru rædd ítarlegar en önnur í nefndinni og tveir stjórnarandstæðingar hafa gert fyrirvara við, m.a. það val að setja á stofn embætti sérstaks saksóknara en setja bankamálin ekki inn í hefðbundið ferli hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

Ég sagði í ræðu þegar við fjölluðum um málið við 1. umr. að greinilegt væri af frumvarpinu að þar væri verið að draga fram þær umræður sem hafa orðið um efnahagsbrotadeildina og ég vitnaði þá í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra, sem hann flutti í hátíðarsal Háskóla Íslands 17. október. Þar segir hann, með leyfi virðulegs forseta:

„Um nokkurt árabil hefur markvisst verið reynt að grafa undan trausti í garð þeirra, sem unnið hafa ötullega að rannsókn og ákærum vegna efnahagsbrota. Til þessarar hörðu atlögu var stofnað vegna rannsókna og ákæru gegn einu af viðskiptaveldum landsins, sem berst nú fyrir lífi sínu. Ákæruvald og lögregla hafa að sjálfsögðu staðið þessa hrinu af sér.“

Hér vitnar hæstv. ráðherra greinilega til Baugsmálsins en eins og menn muna var í því máli farið í miklar lögfræðilegar deilur og ríkislögreglustjóri úrskurðaður vanhæfur í hluta þess. Ég kann ekki að rekja þá sögu alla, virðulegur forseti, en m.a. vegna þeirrar forsögu kaus ég að styðja að sett væri upp embætti sérstaks saksóknara. Mjög óheppilegt væri ef rannsókn á bankahruninu færi fljótt í lögfræðilegar deilur um hæfi embættis ríkislögreglustjóra þannig að það tefði alla rannsókn og væri ekki til bóta á nokkurn hátt að setja málið í þann farveg. Ég hef því kosið að styðja þá hugmyndafræði að setja á stofn sérstakt embætti þó að það skjóti skökku við ef horft er almennt á löggjöf.

Í nefndarálitinu er tekið fram að þessu nýja embætti sérstaks saksóknara er heimilt að leita til sérfróðra aðila, innlendra og erlendra, eftir því sem það telur þörf á. Ljóst er að þetta nýja embætti sem starfa mun tímabundið og einbeita sér að einu máli, bankahruninu, sem er mjög viðamikið mál, mun að líkindum verða dýrt í rekstri. Ég tel eðlilegt að embættið verði nokkuð kostnaðarsamt og held að rannsóknin hljóti að kosta talsverða peninga, þar sem hún verður að vera vönduð og ítarleg.

Ég ætla líka að gera 4. gr. að umtalsefni, í henni eru nýmæli um uppljóstrara en slíkt hefur ekki áður verið í löggjöf okkar og ekki eru til fyrirmyndir á Norðurlöndunum gagnvart slíkri löggjöf þannig að við fikrum okkur að vissu leyti inn á nýjar brautir. Þó að sambærilegt ákvæði sé að einhverju leyti í samkeppnislögunum gengur þetta að mínu mati talsvert lengra.

Nefndin gerir breytingu gagnvart þeirri grein og útvíkkar hana þannig að hún er ekki lengur bundin við starfsmenn fyrirtækja heldur segir núna í breytingartillögu nefndarinnar:

„Ríkissaksóknara er heimilt að ákveða, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. og að fenginni rökstuddri tillögu frá hinum sérstaka saksóknara, að sá sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn sæti ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að broti hans sjálfs.“

Ég vil sérstaklega undirstrika að orðin „að sá“, sem veitir upplýsingarnar getur fengið afslátt af refsingu sinni eða sæti ekki saksókn, eru útvíkkuð til allra. Ég vil nefna sérstaklega, þó að það sé kannski skrýtið, að ákvæðið getur m.a. átt við um fyrrverandi maka þeirra sem tengdust bankamálunum og dæmi eru um að þjóðþekktar persónur hafi upplýst um ýmsar fjárhagstilfærslur aðila síðar.

Síðan er ákvæði sem við settum líka inn og er tekið úr rannsóknarnefndarfrumvarpinu um að birta skuli opinberlega upplýsingar um hlutabréfaeign saksóknarans o.s.frv. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í þetta ákvæði, en þar er gengið nokkuð langt, virðulegur forseti, í að upplýsa um fjármál þess sem gerist sérstakur saksóknari. Þetta gengur nokkuð nærri stjórnarskrárbundnum réttindum um friðhelgi einkalífs af því að skylda er um opinbera birtingu í þessu sambandi. Nefndin telur að við glímum við sérstakar aðstæður og vegna almenningshagsmuna sem í húfi eru sé nauðsynlegt að hæfi viðkomandi aðila sé algjörlega hafið yfir allan vafa og viðkomandi aðili njóti trausts þannig að ákvæðið er sett hér inn, virðulegur forseti.

Gildistíminn er framlengdur til 1. janúar 2011 og ég var svolítið hugsi yfir því en ákvað að styðja það. Ég held að það blasi við að rannsóknin mun taka þennan tíma og vil ítreka að hvergi er gefið í skyn að ekki eigi að vinna hratt og örugglega í rannsókninni. En þetta er sá raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir, þetta mál er það viðamikið að líklega er óraunhæft að halda því fram að starfið taki mikið styttri tíma. Ef svo er þá er það fínt en líklega verður ekki um það að ræða.

Að lokum, virðulegur forseti, vil ég undirstrika að nefndin telur eðlilegt að hæstv. dómsmálaráðherra hafi samráð við allsherjarnefnd um skipun í embætti hins sérstaka saksóknara. Mjög óvenjulegt er að setja slíkt í nefndarálit en það er gert vegna þess að nefndarmenn ræddu sérstaklega um það við hæstv. ráðherra á opnum fundi í allsherjarnefnd — fyrsta opna fundi þeirrar tegundar í nefndinni — að stjórnmálaflokkarnir vilja samráð um ráðninguna. Auðvitað er valdið í höndum ráðherrans en hér er sagt hreint út í nefndaráliti að það eigi og sé mjög mikilvægt að hafa samráð við allsherjarnefndina um skipun sérstaks saksóknara þannig að við bíðum eftir að það samráð fari fram.

Að öðru leyti vil ég taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá talsmanni nefndarálits, hv. þm. Birgi Ármannssyni, og tel mikilvægt að málið klárist sem fyrst svo rannsókn geti hafist á þessu mjög svo erfiða og viðkvæma máli sem nú þarf að rannsaka og velta við öllum steinum gagnvart.