136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

íslensk málstefna.

198. mál
[19:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem hefur verið lögð fram og sýnist við fyrstu sýn að hér sé um mjög vandaða vinnu að ræða enda hefur vinnulag verið til mikillar fyrirmyndar. Mjög margir úr málsamfélaginu hafa tekið þátt í mótun þessarar stefnu. Þau málþing sem hafa verið haldin til að ræða efni stefnunnar hafa verið vel sótt og kynnt t.d. í fjölmiðlum. Það er mikil ástæða til að hrósa þessu vinnulagi. Rætt hefur verið um stöðu tungunnar, t.d. var rætt í fyrra um lagalega stöðu hennar og annað slíkt, og hér eru komnar markvissar tillögur til þess bæta úr því.

Mig langar að nefna nokkrar aðgerðir sem eru í tillögunum. Sérstaklega langar mig að vekja máls á móðurmálskennslunni sem ég held að sé sá grunnur sem við verðum að byggja á. Það er athyglisvert að skoða tillögur málnefndarinnar þar sem kemur fram að móðurmálskennsla sé hlutfallslega minni hér á landi en í Noregi og Danmörku. Ég held að við getum staðið okkur betur og bætt úr. Það hangir að sjálfsögðu saman við að menntun kennara í íslensku verði aukin eins og lagt er til í þessum tillögum.

Stundum er sagt að allir kennarar séu móðurmálskennarar. Það er þó ekki svo. Við þekkjum það sem höfum tekið þátt í kennslu á ýmsum skólastigum að það er mjög mismunandi hvernig kennarar meta málnotkun og beitingu tungumálsins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta verði í raun hluti af öllum greinum sem eru kenndar þannig að nemendur venjist því að þurfa að tjá sig á góðri íslensku um öll mál.

Enn fremur er í kaflanum um móðurmálskennslu og kennaramenntun rætt um lestrarátak og það get ég tekið undir. Íslensk börn lesa æ minna samkvæmt rannsóknum og það er áhyggjuefni. Það er rætt um átak í íslenskum barna- og unglingabókmenntum. Ég held að þetta sé mikil nauðsyn og ég minni á tillögu sem liggur hér fyrir frá mér og fleiri þingmönnum Vinstri grænna um barnamenningarhús. Ég held að það væri ein leið til þess að vekja athygli á barnamenningu og auka hlut barnabókmennta og annarrar barnamenningar í menningarlífinu. Við erum með svo margt gott sem er gert í íslensku menningarlífi fyrir börn og það þarf í rauninni bara að taka það saman og kynna það betur, efla starfið úti í skólunum o.s.frv. Það þyrfti ekki að vera mikill tilkostnaður við að búa til miðstöð fyrir allt það góða starf sem er unnið í barnamenningu hér á landi en það skiptir gríðarlegu máli til að viðhalda tungunni. Þetta á ekki bara við um barnabókmenntir heldur einnig um leikhús fyrir börn, tónlist fyrir börn o.s.frv.

Ég staldraði aðeins við í kaflanum um háskólana þar sem kveðið er á um að háskólar setji sér skýra málstefnu og taki upp hagnýta kennslu í íslensku fyrir erlenda kennara og nemendur. Það hefur reyndar lengi verið mín skoðun að háskólar ættu að bjóða öllum nemendum, líka innlendum, upp á hagnýt málnotkunarnámskeið. Það vill oft verða þannig að fólk þarf hreinlega á endurmenntun að halda í málnotkun alveg eins og öllu öðru og ég held að íslenskan verði út undan. Fólk venst á að skrifa með tilteknu málsniði og beita ákveðinni málnotkun og ég held að full þörf sé á að nemendur eigi kost á því að sækja sér endurmenntun í íslensku þó að þeir séu komnir á háskólastig.

Það sem ég staldraði hins vegar hvað mest við er kaflinn um fræði og vísindi, því hæstv. ráðherra nefndi áðan umdæmisvandann og þar held ég að umdæmisvandinn sé mestur. Við höfum séð þá þróun að fólk er farið að skrifa fræðigreinar á ensku til þess að fá birtingu í alþjóðlegum tímaritum sem er eðlilegt ef maður vill ná frama innan fræðasamfélagsins. Það er ekki metið á sama hátt að skrifa fræðilegt efni á íslensku. Mér finnst miklu skipta að við veltum þessu sérstaklega fyrir okkur, því ásamt uppeldi barnanna, lestraruppeldi og tungumálsuppeldi held ég að þarna horfum við á nýsköpun í tungumálinu. Þarna hugsar fólk nýja hluti og það skiptir máli að þeir séu hugsaðir á íslensku.

Ég minni á góða ritgerð Þorsteins Gylfasonar um að hugsa á íslensku. Hér sjáum við ákveðna þróun, það er verið að gera kröfu um að doktorsritgerðir, svo dæmi sé tekið, séu skrifaðar á ensku enda auðveldar það fólki síðar að birta greinar unnar upp úr þessum ritgerðum í erlendum tímaritum. Þetta skapar hins vegar ákveðna erfiðleika fyrir íslenska nemendur, því við erum að tala um nemendur í íslenskum háskólum, að því leyti að mjög margir þurfa jafnvel að leggja út í kostnað við að þýða ritgerðir yfir á ensku af því þeir eiga í erfiðleikum með að tjá hugsun sína skýrt á tungumáli sem er ekki þeirra fyrsta mál. Ég tel því að það geti verið margbrotinn vandi fólginn í að skrifa doktorsritgerð á ensku þegar manni er ekki tamt að tjá sig um sína fræðigrein á því máli. Þar af leiðandi þarf að leggja aukna vinnu í hana og samt er maður í raun knúinn til að gera það til þess að fá alþjóðlega viðurkenningu. Ég held að þarna skipti gríðarlegu máli að við stöldrum við og veltum fyrir okkur hlutverki vísindaheimsins og hvernig hann getur gefið gott fordæmi.

Ég hef t.d. tekið eftir því, þar sem ég dundaði mér við það í sumar að þýða bók þar sem mikið var fjallað um ýmiss konar efni í hinu daglega lífi, að innan efnafræðinnar er mjög mismunandi hvort menn hafa fyrir því að þýða heiti eða ekki. Maður sér í rauninni hvernig enskan hefur tekið yfir heil svið þar innan borðs. Nú ætla ég ekki að segja að efnafræðingar séu eitthvað verri en aðrir, þetta er bara dæmi sem ég hef kynnst og ég held að þetta sé algengara en margan grunar.

Mig langar að nefna tvennt til viðbótar. Auðvitað íslensku sem annað mál, ég er ánægð með að sjá þær áherslur sem þarna eru um að halda áfram að kenna og bjóða útlendingum sem hér eru upp á íslenskunám og ekki síður styrkja rannsóknir á kennslu í íslensku sem öðru máli.

Síðan er það hlutverk fjölmiðla. Það held ég að sé líka atriði sem þarf að huga vel að ásamt börnunum og vísindamönnunum, því fjölmiðlar eru gríðarlega mótandi í málnotkun. Ég held að það væri ráð að fjölmiðlamenn sæktu sér líka endurmenntun í tungumálinu og ég held að þeir geri það, t.d. þar sem þeir hafa yfirlesara eins og ég veit að eru auðvitað inni á öllum fjölmiðlum. Það væri lítill tilkostnaður fyrir fjölmiðla að nýta sér þessa yfirlesara sem kennara um leið og sækja sér þannig endurmenntun í íslensku máli.

Það síðasta sem mig langar að nefna eru þýðingar og hvað þær geta skipt miklu máli. Ég ólst upp við þýðingu á Stjörnustríði. Það var fyrsta myndin sem ég sá í bíói, Stjörnustríð, mynd númer 2. Þar ólst ég upp við að persónurnar hétu Logi, Lilja og Hans Óli. Síðan fór ég náttúrlega á myndirnar aftur þegar þær komu endurhljóðblandaðar í bíó en þá hétu persónurnar Luke, Han Solo og Leia og allur metnaður var farinn úr þýðingunni. Myndin hét bara Star Wars og þetta voru Jedi-riddarar en ekki Væringjar eins og það hét í gömlu þýðingunni. Helstirnið hét Dauðastjarnan sem mér fannst nú talsvert metnaðarlítil þýðing. Þarna sat ég og hugsaði hvað þetta getur skipt miklu. Að hafa séð þessa mynd þýdda fram og til baka þar sem orðaforði var sóttur í fornbókmenntirnar ef því var að skipta — það sat í mér enn þá. Ég mundi hverja einustu þýðingu þegar ég fór á myndina aftur tuttugu árum seinna. Það þarf því ekki að gera mikið til að efla íslenskuna. Það þarf ekki að vera nema þetta, að þýða svona orð, og þá alast börnin upp við að það sé eðlilegt að tala íslensku en ekki nýta bara alheimstungumálið.

Ég fagna sem sagt þessum drögum og minni á orð nóbelsskáldsins okkar: „Gott mál er andlegur þrifnaður“. Ég held að þessi tillaga hjálpi okkur við að standa í þeim þrifnaði.