136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

íslensk málstefna.

198. mál
[19:53]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um íslenska málstefnu. Samkvæmt lögum nr. 40 frá 2006, nánar 9. gr., átti Íslensk málnefnd að vinna að tillögu að íslenskri málstefnu fyrir hæstv. menntamálaráðherra. Þessar tillögur liggja hér fyrir og aðalmarkmið þeirra er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Nú er það svo að við sem byggjum þetta land tölum flest þetta tungumál. Það er líka ljóst að framtíðarhorfur tungumálsins ráðast fyrst og síðast af stöðu þess innan málsamfélagsins en ekki af stærð samfélagsins. Þess vegna þurfum við Íslendingar að rækta okkar tungumál og standa vörð um íslenskuna. En hver er lagaleg staða íslenskrar tungu í dag? Hún er líklegast engin. Hvergi í stjórnarskrá eða lögum er kveðið á um að íslenska sé hið opinbera tungumál lýðveldisins Íslands. Í þessari þingsályktunartillögu stendur á blaðsíðu 13, með leyfi forseta:

„Hvergi er í lögum kveðið á um það að íslenska skuli notuð í störfum Alþingis Íslendinga.

Hvergi er kveðið á um það að lög, reglugerðir og lögskýringargögn á Íslandi skuli vera á íslensku.

Hvergi er kveðið á um það í lögum að íslenska skuli notuð í störfum Stjórnarráðs Íslands eða sveitarstjórna á Íslandi.“

Er ekki mál til komið, hæstv. forseti, að svo verði?

Ég get tekið heils hugar undir hvert orð sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði hér áðan um íslenska tungu. Ég vil á sama hátt og hv. þingmaður gera að umtalsefni íslenskukennslu frá fyrsta skólastigi leikskólans og þar til ævinni lýkur því maður lærir svo lengi sem lifir. Það kemur fram að í viðmiðunarstundaskrá eru íslensku- eða móðurmálskennslustundir færri á Íslandi en erlendis. Ekki veit ég nákvæmlega hvort þar er eingöngu tekið til þeirra stunda sem íslenskan eða erlenda tungumálið eru kennd ein og sér eða hvort það er í blönduðu samhengi en hvað þessa töflu varðar á blaðsíðu 17 í þessu þingsályktunarskjali þá stöndum við Íslendingar illa að vígi.

Þeir sem hafa starfað að íslenskukennslu hafa margreynt og sagt að allir kennarar í íslenskum skólum ættu að vera íslenskukennarar en þeir eru það ekki, það er alveg ljóst. Þeir hafa í gegnum tíðina ekki látið íslenskuna skipta máli í öllum greinum eins og íslenskukennarar gera innan fræða íslenskunnar. Það er þannig og sjálfsagt á fleiri en einu skólastigi. Þess vegna skiptir máli að þeir sem vinna í skólunum, allir uppalendur innan skólanna — það skiptir máli að þeirra tunga sé íslenska, að þeir tali íslensku. Hún þarf ekki að vera þeirra móðurmál en það skiptir máli að þeir tali íslensku og að þeir tali gott mál vegna þess að það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Á nákvæmlega sama hátt og áhersla er lögð á að auka málskilning til þess að auka færni og málörvun þá skiptir lestur foreldra og uppalenda afar miklu máli. Meira að segja er sagt að það að lesa fyrir börn geti skipt sköpum fyrir þá sem greinast síðar með lesblindu vegna þess að þeir hafi þá öðlast ákveðinn skilning á tungumálinu þótt þeir þekki ekki hljóðkerfisþáttinn. Allt þetta skiptir máli og því ber að leggja ríka áherslu á tungumál okkar.

Mig langar í þessu sambandi, hæstv. forseti, að nefna afar skemmtilegan útvarpsþátt sem er á sunnudögum og heitir Orð skulu standa. Það er sérstaklega ánægjulegt, í það minnsta fyrir þann sem hefur einhvern áhuga á íslenskri tungu, að fylgjast með þeim þætti og ekki síður þeim sem þar eru og taka þátt. Hvernig þeir nálgast viðfangsefnið, tungumálið sem þeir tala og leiðin sem þeir fara í leit að lausninni ef þeir þekkja hana ekki í upphafi. Fleiri slíkir þættir og þá fyrir börn allt frá fjögurra, fimm ára og upp allan grunnskólann gætu aukið áhuga þeirra á tungumálinu, skilning þeirra og næmni fyrir því sem felst í þessu fallega tungumáli.

Við erum oft hrædd við það Íslendingar, og margir íslenskukennarar, þegar unglingarnir okkar eru með slanguryrði sín og sletta á ensku, segja hæ og bæ og „love you“ og allt það. Ég hef engar áhyggjur af því. Ég hef áhyggjur af því þegar fólk sem kemur frá útlöndum ætlar að breyta íslenskunni, sem er sagnabesta mál í heimi, í nafnorðamál. Ég hef áhyggjur af því þegar Íslendingar sem koma frá útlöndum og eru þar lærðir misnota tilvísunarsetningar þannig að málið, eða það sem átti að segja, verður allt annað en það sem til stóð.

Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að nefna tvær setningar þar sem tilvísunarsetningar eru rangt notaðar. Sú fyrri birtist í sveitablaði. Þar stóð, reyndar var blaðið ekki skrifað af hámenntuðum einstaklingi en þó menntuðum með háskólagráðu:

Hestur í óskilum hjá hreppstjóra sem er rauðskjóttur og ójárnaður.

Þetta er frekar dapurt en þó kórónaði fréttamaður eins miðilsins alla vitleysuna þegar hann sagði:

Fundur var haldinn hjá óþekktum stjórnmálamanni sem stóð í sex klukkustundir.

Það verður að skoða þessa þætti íslenskunnar ekki síður en að hafa áhyggjur af slanguryrðum barna og unglinga.

Hæstv. forseti. Fjölmiðlarnir skipta máli, barnaefni í sjónvarpi og barnabækur. Þar ber að vanda tunguna, og meira en vanda hana, það ber að hlúa að íslensku máli í öllu sjónvarpsefni fyrir börn. Það þarf að vanda þýðingar. Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að ögn var Starwars skemmtilegri sú fyrsta sem kom en hinar sem komu á eftir. Einmitt í þá veru getum við eflt, ekki bara áhugann á málinu okkar heldur næmni og tilfinningu fyrir því, hvað þetta tungumál er einstakt og hvað okkur hefur þrátt fyrir allt tekist að halda því óspilltu þau ár sem þetta land hefur verið í byggð.