136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

íslensk málstefna.

198. mál
[20:06]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil koma hingað upp í ræðustólinn til að þakka hv. þingmönnum fyrir góðar ábendingar og snjallar ræður. Segja má að ég taki undir meira og minna allt sem sett var fram, hvort sem það var í formi bollalegginga eða ábendinga. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, og hef sagt það sjálf hér í þingsal, að tryggja þarf lagalega stöðu íslenskrar tungu, hún er engin. Það er rétt að engin lög mæla fyrir um að við eigum að tjá okkur á íslensku í þingsal, hvað þá að frumvörp og þingskjöl séu sett fram á íslensku. Ég hef ítrekað sagt að þessu verði að beina til stjórnarskrárnefndar og hún verði að fara vel yfir þann hluta.

Þær ástkonur íslenskunnar sem töluðu hér áðan komu inn á marga athyglisverða þætti. Það góða við þetta er að við drögum fram að margt hefur verið gert vel. Vinnan var góð hjá Íslenskri málnefnd og margir voru dregnir að því borði að móta tillöguna sem við ræðum um. En ég hef velt ýmsu fyrir mér í tengslum við kennsluna — hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom réttilega inn á það hvað varðar móðurmálskennsluna og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerði það líka. Við gætum greinilega staðið okkur betur hvað varðar fjölda kennslustunda í íslensku í grunnskólum og það kemur m.a. fram í línuriti í þingsályktunartillögunni. Ég tel einnig mjög mikilvægt að nú þegar við erum að móta kennaramenntun að nýju — ég hef áður sagt að það er eitt mikilvægasta verkefnið hjá þeim háskólum landsins sem bjóða upp á kennaramenntun — setjum við fram hugmyndir um það hvernig kennara við viljum sjá í framtíðinni.

Ég hef lagt á það ríka áherslu að með því að auka kröfur um kennaramenntun byggjum við undir hinar sérstöku greinar, m.a. undir íslenskuna. Ég bind vonir við að með því að stokka upp í kennaramenntuninni, og veita háskólunum til að mynda tækifæri til að byggja enn frekar undir íslenskuna, munum við sjá sterkari kennara í framtíðinni og þá sérstaklega með aukna áherslu á íslensku. Ég vil hins vegar hvetja hv. þingmenn, sem báðir eru í menntamálanefnd, til að kalla fyrir nefndina háskólarektora — nefna má Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri — sem m.a. eru með menntavísindasvið á sinni könnu, til að vita hvað þeir ætla að setja fram í þessum efnum, hvernig þeir ætla að koma til móts við það sem fram kemur í þessari málstefnu. Nú er verið að móta námið og í því felast tækifæri til að byggja enn frekar undir íslenskunám og íslenskukennslu til lengri tíma litið.

Ég ætla ekki að fara út í ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar en vil þó engu að síður fara aðeins stutt inn á það sem tengist kennaramenntuninni almennt. Við höfum átt við þann vanda að glíma að við höfum ekki fengið nægilega marga kennara inn í skólana. Við höfum þó verið að fjölga faglærðum innan skólanna, það er tvímælalaust þannig. Þróunin hefur verið jákvæð í þá veru. Þó að ástandið í efnahagsmálum sé að vísu tímabundið vona ég að það leiði til þess að auðveldara verði fyrir skólana að fá kennara. Það yrði vissulega jákvætt en um leið verðum við að byggja upp til framtíðar þannig að ekki þurfi hörmungar í efnahagsmálum til að fylla skólana. Við eigum að bjóða upp á þannig kennaramenntun og umhverfi í skólum landsins að skólarnir haldi í þá kennara sem þangað hafa leitað, þ.e. að þeir hverfi ekki á braut þegar ástandið breytist. — Þetta var útúrdúr af minni hálfu en tengist samt uppbyggingu í íslenskunni. Að mínu mati þurfum við að leita allra leiða til að fá fólk sem bæði hefur gott vald á íslensku og einlægan áhuga á kennslu til að vera áfram í skólunum. Það er önnur saga.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom inn á athyglisverðan þátt varðandi fræði og vísindi, umdæmisvandann, þ.e. að háskólanemar skuli skrifa fræðigreinar á ensku einmitt þar sem nýsköpunar er þörf. Það er eins og skortur á íslenskum orðum á nýjum fræðasviðum leiði til þess að við verðum eftirgefanleg og notum ensk orð í ríkari mæli. Að þessu verðum við að gæta og menntamálanefnd mun fara yfir þessa hluti með þeim sem komu að mótun íslenskrar málstefnu — ég vil enn og aftur þakka fyrir þá vönduðu vinnu. Ég ætla ekki að eigna mér það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði þegar hún hrósaði vinnulaginu. Fyrst og fremst má hrósa Íslenskri málnefnd í þessu tilviki. Hún stóð mjög vel að hlutunum og fléttaði inn allt málsamfélagið og einnig fyrirtækin, háskólana og fjölmiðlana.

Þá erum við komin að fjölmiðlunum sem skipta gríðarlega miklu máli. Allir fjölmiðlar, hvort sem þeir eru ríkisreknir eða einkareknir — það að vera undir orðinu einkarekinn á ekki að veita neinn afslátt af því hvernig menn setja mál sitt fram í fjölmiðlum. Gera á ríkar kröfur til einkarekinna og ríkisrekinna fjölmiðla, sérstaklega á þessu sviði. Ég vil líka hrósa fjölmiðlum fyrir að hafa farið út í markvissa talsetningu á erlendu efni fyrir börn. Það hafa þeir gert vel og þýðingarnar hafa margar hverjar verið ágætar þó að hnýta megi í sumar þeirra.

Þá erum við komin að þýðingunum. Hægt er að safna í umræðuefni í mörgum saumaklúbbum, boðum og samkomum þegar farið er út í þýðingar. Við ræddum það hér frammi áðan hvernig okkur væri tamt að tala um alþjóðastofnun sem við höfum rætt mikið í þessum sal, sem er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Eigum við að nota skammstöfunina IMF eða AGS? Ég hallast að AGS en við eigum alla vega ekki að segja ÆMF eins og margir segja. Þetta er í hnotskurn dæmi sem við höfum staðið frammi fyrir nú á síðustu vikum og margir hafa talað á þessum nótum. Við þurfum að sýna gott fordæmi í þessu, hv. þingmenn, og ganga á undan með góðu fordæmi þó að við gleymum okkur stundum eins og aðrir þegar við beitum okkar ástkæra ylhýra tungumáli.

Ég vil þakka kærlega fyrir þær ábendingar sem hv. þingmenn hafa sett fram og beini því eindregið til þeirra að kalla fyrir hv. menntamálanefnd þá sem þeir telja skipta máli í því að koma málstefnunni í framkvæmd. Málstefnan er góð en hún er enn bara orð á blaði. Við áttum okkur á ábyrgð okkar í menntamálaráðuneytinu, hvað við þurfum að gera. Við höfum hafið okkar starf, við höfum áttað okkur á því hvernig við ætlum að fylgja málinu eftir. Það verðum við að gera í samvinnu við þingið, í samvinnu við stofnanir samfélagsins og í samvinnu við fyrirtæki og heimili landsins. Ég vil þakka góðar undirtektir og bið um stuðning við eftirfylgni þessarar góðu stefnu.