136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, o.fl.

124. mál
[20:30]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað á að segja um þessa ræðu sem var flutt af talsverðri vandlætingu. Hér talaði maður sem greiddi atkvæði með hinum umdeildu sérréttindum fyrir ráðherra, æðstu embættismenn og þingmenn 2003, studdi frumvarpið og er síðan alltaf að hneykslast yfir þeim sömu sérréttindum. Hann greiddi atkvæði með sérréttindum sjálfum sér til handa, og ráðherrum sérstaklega. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, í ýmsu tilliti voru ekki bætt lífeyrisréttindi almennra þingmanna. Þetta voru fyrst og fremst ráðherrasérréttindalög, það er nokkuð til í því. Hins vegar tapaði enginn á þessum breytingum, það var áskilið í lögunum að menn gætu valið. Ef þeir töpuðu á lagabreytingunni var þeim frjálst að vera í gamla kerfinu. Þetta er þingmaður sem greiddi atkvæði með sérréttindum sjálfum sér til handa og talar hér núna af mikilli vandlætingu og kveður upp þunga dóma yfir öðrum.

Síðan skulum við tala aðeins um B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem er svona hræðilegur að mati hv. þingmanns. Þeirri deild var lokað í árslok árið 1996. Það hefur enginn farið þar nýr inn og þegar málið er gert upp í heild sinni hefur hann ekki reynst ríkissjóði sú byrði sem hv. þingmaður vill vera láta. Um árabil og áratugabil voru teknir þarna út fjármunir sem voru notaðir, í sumum tilvikum vaxtalaust eða vaxtalítið, af ríkinu til uppbyggingar á eigin innviðum. Síðan spöruðust ómældir fjármunir vegna þess að þeir sem nutu góðra lífeyrisréttinda úr þessari deild, úr þessum lífeyrissjóði, spöruðu almannatryggingum mikla fjármuni. Þegar málið er skoðað þarf að skoða það í þessu stóra samhengi.

Varðandi sýnileika launa er ég alveg sammála hv. þingmanni að allt á að vera uppi á borði og sýnilegt. Hann vék að starfskostnaðargreiðslum sem voru settar hér á einhvern tímann á síðari hluta 10. áratugarins. Þingmenn tóku þær sjálfir, greiddu atkvæði um það. Þó að þeir væru búnir að ákvarða með öðrum lögum að kjaraákvarðanir ættu að heyra undir kjaradóm ákváðu þeir sjálfum sér til handa þessar greiðslur. Ég er alveg sammála hv. þingmanni hvað þær greiðslur varðar. Þær voru mjög slæmar, óheppilegar er ekki orðið, og ég gerði það sama og hv. þm. Pétur H. Blöndal og hef aldrei tekið þessar greiðslur.

Stíga skrefið til fulls, segir hv. þingmaður, það eigi að fara væntanlega þá með alla opinbera starfsmenn inn í almenna lífeyrissjóði — (PHB: Þingmenn.) já, þingmenn inn í almenna lífeyrissjóði. Hvers vegna er ekki hægt að fara með þingmenn inn í það kerfi sem opinberir starfsmenn hafa barist fyrir í sinni kjarabaráttu? Þetta eru ekki neinir forréttindahópar — við erum að tala um sjúkraliða, slökkviliðsmenn, hjúkrunarfræðinga, kennara, strætisvagnabílstjóra — sem hafa barist í sinni kjarabaráttu um áratugaskeið. Staðreyndin er sú að það er hægt að koma hér á mismunandi kerfi sem mönnum er líka frjálst og hægur vandinn að gera á almennum vinnumarkaði, nefnilega það að hafa réttindi lífeyriskerfanna fasta stærð en launin þá breytileg. Þetta er bara val sem menn hafa, hvort þeir vilji taka skerðingu í efnahagsáföllum eða þrengingum í gegnum launin eða í gegnum lífeyrisréttindin. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að það sé mikilvægara að halda lífeyrisréttindunum sem fastri stærð en þá verið tilbúinn að taka launin sem breytileg og í þessu tilviki er breytan einmitt launin og þá iðgjaldið, ef sverfur að hjá lífeyrissjóðunum verður að hækka iðgjaldið til sjóðanna.

Hv. þingmaður notaði gamalkunna aðferð, að reyna að skapa úlfúð gagnvart starfsmönnum hins opinbera með því að höfða sífellt til þess að verið væri að setja klyfjar á skattgreiðendur. Það á þá að sjálfsögðu við um öll kjörin, það á væntanlega við um launin líka, veikindaréttinn og öll launakjör hjá starfsmönnum sem vinna hjá ríki eða sveitarfélögum. Það eru ekki bara lífeyrisréttindin. Það er um kjörin öll. Og fólk hefur í kjarabaráttu sinni valið að leggja höfuðkapp á að bæta lífeyrisréttindin. Þetta er bara frjálst opið val sem menn hafa tekið ákvörðun um. Ég furða mig á því að hlusta á þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétur H. Blöndal, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem virðast vera að búa sig undir það að hefna sín á opinberum starfsmönnum. Ef þeir þurfa að láta undan í þessu máli, varðandi eigin sérréttindi í lífeyrisréttindum, þurfi að vinna verkið til fulls og skerða réttindi opinberra starfsmanna almennt.

Af því að hv. þingmaður hefur óskað eftir því að koma upp í andsvari verður fróðlegt að heyra hvort það er þetta sem er upp á teningnum eins og mér heyrðist á máli hans þegar lífeyrisréttindin komu hér til umræðu í þingsal um daginn.

Nei, hæstv. forseti, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna hafa kynnt okkur, þótt í óljósum orðum sé enn þá, hvaða áform þau hafi uppi um breytingar á hinum illræmdu eftirlaunalögum og á daginn hefur komið að það er ný sérréttindaútgáfa. Þau eru búin að liggja yfir því mánuðum saman, allar götur frá því að ríkisstjórnin var mynduð, að finna hvað þau komist upp með að skerða eigin réttindi lítið. Ef ég man það rétt, ég er ekki með þessi gögn fyrir framan mig, er réttindaávinnsla ráðherra 8% og mig minnir að hún fari þá niður í 4 eða 5%. Ég held að breytingartillögur þeirra gangi út á það en hún yrði eftir sem áður meira en helmingi meiri en almennt gerist hjá starfsmönnum ríkisins. Þetta er allur ávinningurinn af því mikla og þrotlausa starfi sem þau hafa unnið saman undir nautshúðinni, hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde og hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þau kynntu okkur nýja sérréttindaútgáfu sjálfum sér til handa í flóðlýstu Þjóðmenningarhúsinu, það dugði ekki annað til.