136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, o.fl.

124. mál
[20:41]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki eiginlega hverju skal svarað til en staðreyndin er sú að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga, hvort sem þeir eru innan BSRB eða Alþýðusambands Íslands, búa við betra lífeyriskerfi en gerist á almennum launamarkaði, það er alveg rétt. Hins vegar hafa kjörin á almennum launamarkaði, í hinum gömlu SAL-sjóðum, batnað mjög á undanförnum árum, um 20% á síðustu 4–5 árum tel ég vera. Vegna þess að opinberir starfsmenn, starfsmenn almannaþjónustunnar hjá ríki og sveitarfélögum, hafa aldrei hvikað frá þeirri staðföstu afstöðu að halda í lífeyrisréttindi sín og láta ekki skerða þau í neinu — ég hef verið mjög á þeirri skoðun sjálfur — hafa lífeyrisréttindi almennt í þjóðfélaginu batnað.

Það hafa alltaf verið til menn eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hafa viljað koma öllum réttindum launafólks niður undir gólflistann, ekki bara lífeyrisréttindum, heldur í nánast öllu réttindakerfinu. Út á það gengur þessi málflutningur fyrst og fremst. Ég legg áherslu á að lífeyrisréttindi fólks, hvort sem er hjá hinu opinbera, ríki, sveitarfélögum eða á almennum vinnumarkaði, séu sem traustust og ég er þeirrar skoðunar að það sé betra að hafa lífeyrisréttindin stöðug og ég vil frekar taka breytingum í kjararýrnun í launum þegar áföll verða í efnahagslífinu.