136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, o.fl.

124. mál
[20:45]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er á því máli að við eigum að búa svo um hnúta að lífeyrisréttindi engra verði skert og þá horfi ég til almenna markaðarins líka. Þessa tölu sem ég var að vitna í, 20% réttindaaukningu á undanförnum, held ég, 5–6 árum, fékk ég hjá lífeyrissjóðunum í gær þegar ég var að afla mér upplýsinga um þetta sérstaklega. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að til eru þeir lífeyrissjóðir sem hafa á undanförnum árum skert réttindi félagsmanna sinna. En almennt hafa lífeyrissjóðirnir styrkt stöðu sína. Þeir hafa verið að sameinast og þeir hafa verið að bæta kjörin. Síðan verðum við fyrir þessum sameiginlegu áföllum, íslenska þjóðin, og ég tel mjög brýnt að allt verði gert sem hægt er til að verja kjör lífeyrisþega. Mér finnst skipta afar miklu máli að við gerum það.

Síðan er alveg rétt og á við um öll laun í landinu, ekki bara hjá starfsmönnum sveitarfélaga eða ríkis, heldur allra starfsmanna, að einhver borgar. Það er einhver sem borgar þeim sem eru að vinna á bensínstöðinni eða í búðinni. Það er neytandinn þá væntanlega og vinnandi fólk sem borgar. Þetta er allt samhangandi keðja. En það sem mér finnst votta fyrir í málflutningi hv. þm. Péturs H. Blöndals er að hann greinir þjóðina alltaf í sundur. Hann talar um þá sem eru á framfæri skattgreiðandans, hins vinnandi manns sem greiðir fyrir einhverja ómaga. Þetta er ekki svona. Allt samfélagið er að sjálfsögðu ein heild þar sem einn vinnur fyrir öðrum. Að sjálfsögðu er það þannig. Það sem við erum að tala um núna er hvernig við getum tryggt, bætt og eflt (Forseti hringir.) þessi almennu réttindi sem launafólk býr við, en ekki grafið undan þeim eins og mér finnst hv. þingmaður gera allt of oft.