136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Vegna spurninga hv. þingmanns vill forseti fara yfir þau atriði sem nefnd voru.

Í fyrsta lagi veit ég ekki til þess að forseta hafi borist athugasemdir í gær meðan á þingfundi stóð um fundarhöld einstakra þingflokka.

Hvað varðar afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins er það deginum ljósara að allar áætlanir þingsins hafa raskast vegna þeirra atburða sem orðið hafa í efnahags- og fjármálalífi landsins og reyndar ekki bara fjármálalífi Íslands heldur veraldarinnar allrar. Það hlaut að koma niður á störfum okkar á Alþingi Íslendinga. Við höfum orðið að stokka upp þau spil. Það hefur tekist býsna vel og ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir mjög gott samstarf hvað það varðar.

Hins vegar liggur það fyrir að fjárlaganefnd mun ekki afgreiða tillögur sínar fyrir 2. umr. fjárlaga fyrr en á föstudagsmorgni. Í því ljósi þurfum við að endurmeta starfsáætlunina hvað varðar þessa viku og þá hina næstu. Þess vegna geri ég ráð fyrir að hitta formenn þingflokka síðar í dag með þær upplýsingar sem ég greindi frá um störf fjárlaganefndarinnar. Vænti ég þess að þetta skýri fyrir hv. þingmanni það sem hann spurði um og vil ég undirstrika það að forseta er vel ljóst að þingmönnum er vandi á höndum að skipuleggja starf sitt. Verkefni okkar hlutu hins vegar að ruglast nokkuð í ljósi þess sem ég nefndi fyrr en þetta vildi ég segja vegna þess sem fram kom í ræðu hv. þingmanns.