136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta mál er allt með miklum ólíkindum. Eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson gat um hér áðan gerði seðlabankastjóri grein fyrir ákveðnum hlutum en ekki hefur verið upplýst við hverja hann hafði þau orð að 0% líkur væru á að bankarnir mundu lifa. Hann segist hafa sagt það við ráðherra, og skilgreinir hverja, í júnímánuði en enginn kannast við að þetta hafi verið sagt við einn eða neinn.

Þá hlýtur að vera eðlilegt að viðskiptanefnd kalli seðlabankastjóra aftur á sinn fund. Hér með skora ég á formann viðskiptanefndar, hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, að kalla seðlabankastjóra aftur á fund þannig að hann geri nefndinni og þinginu grein fyrir því og gefi upplýsingar um það hvenær, hvernig og við hverja hann kom þeim upplýsingum á framfæri að 0% líkur væru á því að bankarnir mundu lifa af.

Hér er um alvarlega yfirlýsingu að ræða og hafi seðlabankastjóri gefið hana á fundi með ráðamönnum bar þeim að sjálfsögðu að bregðast við. Sé seðlabankastjóri hins vegar að segja þetta án þess að nokkur rök eða tilefni séu til liggur ljóst fyrir að seðlabankastjóra er ekki lengur sætt, hann verður að segja af sér.