136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Öll er þessi umræða athyglisverð og ýmislegt af því sem varðar nefndan fund viðskiptanefndar, og suma þeirra sem þann fund sátu, er sannarlega með ólíkindum. Það er athyglisvert ef fram hefur komið á fundi hv. viðskiptanefndar að í Seðlabankanum séu samtöl, eða fundir, hljóðrituð og upptakan varðveitt í sex mánuði. Það hlýtur að vera mikið fagnaðarefni, nú þegar við spyrjum okkur að því hvernig það gat gerst sem gerst hefur, að banki bankanna, Seðlabankinn, hafi staðið með þeim hætti að gagnavörslu. Við hljótum að spyrja okkur hvort hv. viðskiptanefnd hljóti ekki að hafa nokkurn aðgang að þessum upptökum og geti kynnt sér málið enn betur en hún hefur þegar gert fyrst að svo illa hefur gengið að fá upplýsingar beint eða frásagnir af því sem þarna hefur fram farið. Þá hlýtur að vera gott til þess að vita að það sé til með einhverjum hætti hljóðritað á bandi.