136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu hv. formanns viðskiptanefndar að allt málið, öll fortíðin frá 1. september sl. í Glitni, verði til rannsóknar hjá öðru endurskoðunarfyrirtæki en því sem hér um ræðir, KPMG. Það er nefnilega svolítið dapurlegt til þess að vita, og ég get tekið undir orð hv. formanns viðskiptanefndar að því leytinu til, að fyrirtækið sjálft skuli ekki hafa áttað sig á þeim hagsmunaárekstrum sem vissulega eru fyrir hendi og því hvaða tortryggni það mun valda í vinnu þeirra. Það er ekki þannig að það sé bara allt í lagi fyrir endurskoðendur að keyra á rauðu ljósi, bara að löggan sjái þá ekki, svo að ég fari í sömu lögreglutilvísanirnar og hv. formaður viðskiptanefndar gerði áðan.

Hvað varðar opinbera regluverkið er kannski erfitt að kenna því um hrun bankanna vegna þess einfaldlega að það var pólitísk stefna hér að hafa það veikt, sérstaklega á peningamarkaðnum. Hið opinbera regluverk má ekki klikka núna í eftirlitinu og þess vegna gerum við athugasemdir og munum halda því áfram. Við höfum óskað eftir utandagskrárumræðu um stöðu Fjármálaeftirlitsins og skilanefndanna. Það er margt að koma fram þessa dagana sem jafnvel vekur efasemdir um það að Fjármálaeftirlitið sem slíkt standi í stykkinu. Á það m.a. við val og skipan og regluverk í kringum skilanefndir bankanna.

Ég fagna þessari yfirlýsingu og treysti því að þessi rannsókn svokallaða hjá KPMG verði dæmd ónýt og sett út af borðinu.