136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir með varaformanni Samfylkingarinnar um það að ábyrgð bankanna sjálfra, eigenda þeirra og stjórnenda, er geysilega mikil í öllu þessu máli. Það má samt ekki leiða til þess að stjórnarliðar reyni að gera lítið úr ábyrgð stjórnvalda því að hún er sannarlega mikil. Hér hefur verið bent á að ítrekað hafa komið fram upplýsingar frá Seðlabankanum um það að stjórnvöld hafi verið vöruð við og stjórnvöld bera það til baka eða segjast ekki hafa fengið slíkar viðvaranir. Þetta er ekki trúverðugt í samskiptum stjórnvalda og Seðlabankans. Það er eiginlega alveg sama hver ber ábyrgðina á því, þessu verður að koma í lag að mínum dómi.

Ábyrgð stjórnvalda er vissulega rík. Í lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, segir m.a. í 10. gr., með leyfi forseta:

„Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:

b. ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir.“

Þetta er auðvitað mjög skýrt í lögunum um ráðherraábyrgð og hér þarf að velta því fyrir sér hvort menn hafi raunverulega haft í höndum upplýsingar sem voru þess eðlis að þeir hefðu átt að geta gripið til ráðstafana til að þetta ástand skapaðist ekki. Í lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem m.a. ná til seðlabankastjóra, eftir því sem ég best veit, segir m.a., með leyfi forseta:

„Rétt er að veita embættismanni lausn um stundarsakir ef hann hefur sýnt í starfi sínu“ — svo koma nokkur atriði upptalin — „eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar því embætti sem hann gegnir.“

Hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) hefur nú lýst því yfir að ýmsar yfirlýsingar seðlabankastjóra hafi verið óviðeigandi þannig að ég fæ ekki betur séð en að hér eigi þessi lög tvímælalaust við.