136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

tilhögun þinghalds o.fl.

[14:01]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna umræðna um stöðu fjárlagavinnunnar í upphafi fyrirspurnatímans og þeirra orða hæstv. forseta að fjárlagafrumvarpið komi úr fjárlaganefnd á föstudagsmorgun.

Í fyrsta lagi hefur forseti ekki um það að segja heldur er það nefndin sjálf. Í öðru lagi vek ég athygli á því að frumvarpið situr fullkomlega fast. Það var boðaður fundur klukkan sex í kvöld en honum hefur verið aflýst og boðað til fundar á morgun.

Hvorki liggur fyrir ný tekjuáætlun né ný þjóðhagsáætlun sem er forsenda þess að leggja fram fjárlagafrumvarp og það þarf þá að koma fyrst. Það liggja heldur ekki fyrir fjáraukalög fyrir árið 2008 sem eðli málsins vegna hljóta að verða að koma áður en við tökum 2. umr. fjárlaga.

Það eru boðaðar miklar breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Fjárlaganefnd hefur ekki fjallað um tillögu ríkisstjórnar hvað varðar þær breytingar þannig að það er alveg út í bláinn að lofa því hér hvenær fjárlaganefnd verður búin að fjalla um fjárlagafrumvarpið.

Þarna eru miklir og stórir póstar á ferð og væntanlega verður tekist á um forgangsröðun. Mikill niðurskurður er boðaður í fjárlagafrumvarpinu. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið sent út bréf um 10% flatan niðurskurð. Ég er ekkert viss um að fjárlaganefnd sé samþykk þeirri stefnu.

Ég tel mjög mikilvægt að forseti tryggi hér að fjárlaganefnd fái eðlilegan og nauðsynlegan og góðan tíma til að fjalla um fjárlagafrumvarpið áður en það kemur til 2. umr. og að frumvarp til (Forseti hringir.) fjáraukalaga fyrir árið 2008 verði lagt fram fyrst.