136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

fundur með fjármálaráðherra Breta.

130. mál
[14:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef í hyggju að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra um fund sem hann átti með fjármálaráðherra Breta 2. september sl. Það er alveg ljóst að sá fundur hlýtur að hafa verið afar merkilegur miðað við hvernig símtali hæstv. fjármálaráðherra, Árna Mathiesens, við fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, vatt fram. Ég tel því mjög brýnt að hæstv. viðskiptaráðherra upplýsi okkur um þennan fund.

Á þeim fundi voru með ráðherra Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, og hugsanlega fleiri. Ég vil gjarnan fá að vita um hvaða banka var rætt á þessum fundi. Síðar hefur komið fram að rætt var um Icesave.

Ég vil líka vita hvað hæstv. ráðherra átti við þegar hann fullyrti við breska fjármálaráðherrann að Bretar þyrftu ekki að hafa áhyggjur en slíkt kemur fram í símtali Árna Mathiesens, hæstv. fjármálaráðherra, við breska fjármálaráðherrann þann 7. október.

Ég vil enn fremur vita hvort hæstv. ráðherra hafi með einhverjum hætti talað brattara en hæstv. ráðherra hafði umboð til. Gaf hæstv. ráðherra eða einhver í sendinefndinni einhvers konar loforð eða viljayfirlýsingu án þess að hæstv. fjármálaráðherra vissi af því?

Það er mjög mikilvægt að þetta komist á hreint, virðulegur forseti, af því að í símtali Árna Mathiesens, hæstv. fjármálaráðherra, við Alistair Darling 7. október — sem reyndar byrjar á því að sá breski heldur að hann sé að tala við Björgvin G. Sigurðsson, hæstv. viðskiptaráðherra, en Árni Mathiesen, hæstv. fjármálaráðherra, leiðrétti það strax — segir sá breski, með leyfi forseta:

„Ég verð að segja eins og er að þegar ég hitti kollega þína og þá hina, þá í raun kemur í ljós að það sem okkur var sagt reyndist ekki rétt. Ég hafði mjög miklar áhyggjur af stöðu bankans í London og þeir héldu áfram að segja að ekkert væri að óttast.“

Síðan segir hæstv. fjármálaráðherra Íslands:

„Ég vona að það verði ekki raunin. Ég var ekki á fundinum svo ég get ekki sagt neitt ...“

Þetta er auðvitað hápunktur samráðsleysis sem maður sér að hér fer fram. Og svo vitnað sé beint í orðalag þess breska segist hann hafa sagt kolleganum sem er þá væntanlega (Forseti hringir.) hæstv. viðskiptaráðherra: „It was nothing to worry about.“

Þess vegna vil ég vita nákvæmlega hvað fór fram á þessum fundi, virðulegur forseti.