136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

fundur með fjármálaráðherra Breta.

130. mál
[14:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir greinargóð og skýr svör. Eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi sat nefndan fund ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu, Baldur Guðlaugsson. Ég hef áður rætt þá staðreynd hér við hæstv. fjármálaráðherra og hann hefur upplýst að ráðuneytisstjórinn hafi ekki tilgreint um verulegan eignarhlut sinn í Landsbankanum þegar hann gegndi störfum sínum í ráðuneytinu. Þess vegna vil ég nota tækifærið hér og spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hafi upplýst viðskiptaráðherra um það áður en hann gekk til fundar við fjármálaráðherra Breta að hann væri umtalsverður hluthafi í Landsbanka Íslands hf. sem til umfjöllunar var á fundinum.