136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

fundur með fjármálaráðherra Breta.

130. mál
[14:12]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Á margnefndum fundi viðskiptanefndar þann 4. desember sl. þar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri kom var rætt um þennan fund sem hér er til umræðu. Seðlabankastjóri sagði að sá fundur hefði komið á óvart, fjármálaráðherra hefði ekki vitað af honum fyrr en mjög seint. Hann hafi þó náð að senda fulltrúa ráðuneytisins eins og hér var sagt að hafi verið Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri.

Ég spyr hæstv. viðskiptaráðherra af þessu tilefni hvort það sé rétt sem kom fram á fundi viðskiptanefndar að ekki sé til fundargerð af þessum fundi. Og í öðru lagi hvort það sé rétt sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði á fundinum að það væru þó a.m.k. til talpunktar svokallaðir sem voru undirbúnir fyrir fundinn. Hann sagðist hafa séð þá og þeir væru í nokkuð mörgum liðum. Þetta tel ég afskaplega upplýsandi gagn í þessu sambandi og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn að birta (Forseti hringir.) þá talpunkta núna.