136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

fundur með fjármálaráðherra Breta.

130. mál
[14:17]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega fráleitt sem látið er í veðri vaka að eitthvað á þessum fundi hafi valdið þessum misskilningi á milli stjórnvalda af því að hann fjallaði bara um eitt. Hann fjallaði um að Fjármálaeftirlitið hér og breska fjármálaeftirlitið hafi unnið að því með Landsbankanum að færa innstæðustarfsemina alla yfir í dótturfélög úr útibúi og ekki að ástæðulausu. Það var af því að innstæðurnar höfðu safnast upp og náðu ákveðnu hámarki árin 2006 og 2007 en minnkuðu aftur á þessu ári. Talin var rík ástæða til að beita sér fyrir því að þær færu í dótturfélög. Það var yfirlýst stefna formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins að starfsemi bankanna erlendis í útibúum færi í dótturfélög, það væri miklu eðlilegra því að þá féllu innstæður undir innstæðuvernd þeirra landa.

Það var eina markmiðið með fundinum og formaður stjórnar FME kom að máli við mig í lok ágúst og sagði mér frá þessu máli, að bresk stjórnvöld gerðu mjög stífar kröfur um flutning á eigum Landsbankans til Bretlands og sérstaklega um tímamörk fyrir flutninginn. Það mundi skipta okkur mjög miklu máli að fá Bretana til að slaka á þessum kröfum og heimila bankanum að reikningarnir yrðu fluttir í dótturfélag strax þó að bankinn sjálfur fengi lengri og rýmri tíma til að flytja eigur á móti. Það var það eitt sem við ræddum á þessum fundi og af því að það skarast á milli ráðuneyta fannst okkur sérstaklega mikilvægt að fjármálaráðuneytið ætti þarna fulltrúa.

Fundurinn var ákveðinn með skömmum fyrirvara og fulltrúa fjármálaráðuneytisins var boðið á ... (Gripið fram í.) Nei, að sjálfsögðu ekki, það er svo fjarri lagi. (Gripið fram í.) Svo að ég svari fyrri spurningu hv. þm. Helga Hjörvars þá upplýsti ráðuneytisstjórinn mig ekki um það og við ræddum það aldrei. (Forseti hringir.) En þetta var efni fundarins og ekki neitt annað.