136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

samráð við Fjármálaeftirlitið.

174. mál
[14:31]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins var alls ekki á því. Hann tók þannig til orða og átti við að öllum hafi verið ljós sú staða að Landsbankinn hefði um þriggja ára skeið staðið fyrir innlánsreikningastarfsemi í Bretlandi. Hún var mjög umfangsmikil og leyfið var gefið út árið 2005. Það var í flútti við ákvæði Evrópska efnahagssvæðisins. Það þurfti ekki einu sinni leyfi héðan til að hefja þá starfsemi. Það hefði hins vegar verið hægt að banna það á þeim forsendum að bankinn stæði veikt á þeim tíma o.s.frv. Þannig að forstjórinn var ekki að vísa neinni ábyrgð yfir á mig. Hann var að segja að öllum hefði mátt vera ljóst að þessi starfsemi átti sér stað.

Það var ekkert á þeim tíma í starfseminni sem gaf tilefni til að láta mig sem viðskiptaráðherra vita um neitt í þeirri starfsemi. Það hefði örugglega verið það ef breska Fjármálaeftirlitið og Landsbankinn og hið íslenska hefðu ekki lent málinu í þeirri vinnu sem þá var í gangi, í samkomulag o.s.frv. Síðan kemur þetta aftur upp í ágúst og þá eru hnökrar á ferðinni og þá er ég umsvifalaust látinn vita um það til að fá tækifæri til að liðka fyrir því og taka það upp á pólitískt stig.

Samráðið á milli er alveg prýðilegt. Menn virða eldvegginn sem er á milli Fjármálaeftirlits og ráðuneytis þannig að ekki má leika neinn grunur á að ráðherra sé að vafstra með pólitískum afskiptum af málefnum einstakra eftirlitsskyldra aðila. Það væri skelfilegt ef grunsemdir væru uppi um það. En um leið þarf að vera eðlilegt flæði um stöðuna almennt, stöðuna á fjármálamörkuðum, og það flæði er mjög gott. Menn tala saman í síma og menn hittast að sjálfsögðu. Formaður stjórnar, sem tók við í febrúar, og ég hittumst reglubundið o.s.frv. Þannig að það samráð er gott enda hafa þessir heiðursmenn unnið afskaplega gott starf. Þeir stóðu í ströngu og stóðu í miklu þegar þetta gekk allt yfir og eftir að bankarnir féllu höfum við náttúrlega haft miklu meira samband enda verkefnin þannig að þau kalla bókstaflega á það.