136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

GSM-samband.

135. mál
[14:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrri hluta verkefnisins um uppbyggingu GSM-farsímaþjónustu á þjóðvegi 1 og öðrum helstu stofnvegum og helstu ferðamannastöðum lauk þann 31. júlí í ár þegar tekinn var í notkun síðasti sendirinn sem þjóna á GSM-farsímasambandinu á hringveginum.

Hæstv. samgönguráðherra sagði við það tækifæri að ekki yrði látið staðar numið í þessum efnum. Unnið væri að því að koma á farsímasambandi um allt land. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Síðan er í gangi annað útboð sem eru þá aðrir vegir sem er verið að taka og því verkefni ætti að ljúka nú um áramót og þá má eiginlega segja að landið sé allt komið í GSM-samband.“

Í skýrslu um framkvæmd fjarskiptaáætlunar, sem samgönguráðherra lagði fyrir Alþingi, á 135. löggjafarþingi í maí í vor, kemur fram að samkvæmt fjarskiptaáætlun sé það markmiðið að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1 og öðrum helstu stofnvegum og helstu ferðamannastöðum. GSM-farsímakerfið hafi ekki náð til alls landsins og skortir töluvert á að samband náist á þjóðvegakerfinu. Rakið er að GSM-kerfið sé liður í öryggi borgaranna og gegni mikilvægu hlutverki í samskiptum í nútímaþjóðfélagi. Síðari hluti áætlunarinnar um endurbætur á GSM-farsímanetinu náði til annarra ódekkaðra stofnvega og helstu ferðamannastaða.

Undirritaður var samningur milli Ríkiskaupa og Fjarskipta/Vodafone í janúar á þessu ári um að það fyrirtæki tæki að sér verkefni, þ.e. síðari hlutann. Samkvæmt áætlun fyrirtækisins er gert ráð fyrir að öllu verkefninu verði lokið á árinu 2008. Nú líður að lokum ársins 2008 og því er eðlilegt að inna hæstv. samgönguráðherra eftir efndum á þessum yfirlýsingum sem hann setti fram í skýrslu til Alþingis og í fréttum Ríkisútvarpsins 31. júlí sl.