136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

háhraðanetþjónusta.

164. mál
[14:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin en verð að segja að þau valda mér engu að síður nokkrum áhyggjum. Mér finnst í fyrsta lagi mjög umhugsunarvert þegar talað er um kostnaðaráætlun upp á 1,5–2 milljarða að tilboð komi upp á 379 millj. Þá velti ég fyrir mér hvað menn voru að hugsa þegar þeir gerðu kostnaðaráætlunina og hvort þetta lága tilboð — sem ég veit ekki hvort hefur borist 31. júlí eða fyrir 31. júlí í sumar, að öllum líkindum, (Gripið fram í.) eða 4. september eftir að tilboðstíminn var lengdur fyrst — heldur þá ekki þeim fjölda fyrirtækja sem taka þátt í útboðinu í einhvers konar gíslingu? Ég hefði haldið að hæstv. ráðherra þyrfti að leggja mjög mikið á sig til að reyna að flýta verkinu og vanda það jafnframt. Við höfum haft nægan tíma til þess, því að stærsti hluti kostnaðar sem til fellur við þetta verkefni er innlendur, smíði á tæknihúsum og möstrum, vinna við uppsetningu á slíkum búnaði, möstrum og húsum, og ég hefði talið að miðað við það sem við þurfum á að halda nú fyrir atvinnulífið sé þetta afskaplega ákjósanlegt verkefni. Mér þykir þetta því standa í skrýtnu stappi og ég nefni máli mínu til stuðnings þessar tölur og finnst vægast sagt himinn og haf á milli kostnaðaráætlunar og ódýrasta tilboðs og velti fyrir mér hvort það sé að þvælast fyrir ráðherranum eða þeim sem eiga að leysa úr málinu.

1.118 staðir, sagði hæstv. ráðherra. Það segir reyndar í svari því sem ég nefndi í fyrri ræðu minni að staðirnir séu 1.230 og að öllum líkindum fleiri því að listinn er eitthvað að breytast. Ég minni á að á meðan á stappinu stendur (Forseti hringir.) eru þessir staðir án háhraðanettengingar.