136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

íslenskukennsla fyrir útlendinga.

150. mál
[15:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð ítarleg spurning sem ég er með og varðar íslenskukennslu fyrir útlendinga sem við ræddum talsvert í fyrra og snýst í raun um eftirfylgni af því sem ráðist var í í fyrra.

Mig langar til að spyrja hversu margir útlendingar hafa nú í ár sótt íslenskunámskeið sem hlotið hafa styrki frá ráðuneytinu, því að ráðuneytið veitti að sjálfsögðu talsverða styrki í fyrra fyrir námskeiðahald nú í ár. Mig langar einnig að grennslast fyrir um það hvort fyrir liggi spá um það hvort aðsókn að þessum námskeiðum muni dragast saman með breyttu atvinnuástandi, en eins og kunnugt er hefur verið talsvert um það að hér hafi útlendingar verið á vinnumarkaði. Eitthvað er um að þeir hafi yfirgefið landið núna og maður skyldi þá ætla að aðsókn að þessum námskeiðum kynni að dragast saman en það er þó erfitt að átta sig á því af því að það er kannski ekki endilega sá hópur sem hefur sótt þessi námskeið. Mig langar að grennslast fyrir um það hvort ráðuneytið hefur einhverjar spár eða einhver gögn í höndunum sem gerir því kleift að meta þetta. Enn fremur hvort fyrir liggi áætlanir um að ráðist verði í gerð framhaldsnámskrár fyrir námskeið umfram þær 225 stundir í íslensku sem skilgreindar eru í námskrá fyrir grunnnám í íslensku fyrir útlendinga. Hvort auglýstir hafi verið styrkir til námsefnisgerðar í íslensku fyrir útlendinga eins og lagt var til í skýrslu verkefnisstjórnar um íslenskukennslu fyrir útlendinga að gera ætti haustið 2008. Hvort viðhorf útlendinga til kennslu og námsefnis í íslenskunámskeiðum hafi verið kannað eins og enn fremur var lagt til í sömu skýrslu. Og hvort endurmenntunarnámskeið hafi verið haldin fyrir þá kennara sem hafa kennt útlendingum íslensku eins og lagt er til í sömu skýrslu.

Þetta er að sjálfsögðu allítarleg fyrirspurn en ég tel þó mikilvægt að málið sé rætt hér því í raun má segja að ráðuneytið hafi brugðist við ákveðnu ástandi sem var uppi í fyrra með því að leggja aukna fjármuni í þennan málaflokk. Ég var sjálf þeirrar skoðunar að gera ætti einhvers konar langtímaáætlun um þennan málaflokk en það kann líka að vera erfitt að gera það í ljósi þess að eftirspurn og aðsókn kann að vera mjög breytileg. Mig langar að halda þessu máli lifandi og kanna hvað ráðuneytið sér fyrir sér sem næstu skref í þessu máli.