136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

íslenskukennsla fyrir útlendinga.

150. mál
[15:11]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að þetta er ítarleg spurning og ég hef knappan tíma í púltinu. Það er því best að fara strax í það að svara spurningum og sjá svo hvað setur hvað verður eftir af tímanum til að svara fyrirspurninni.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður hversu margir útlendingar hafi nú í ár sótt íslenskunámskeið sem hlotið hafa styrki frá ráðuneytinu. Því er til að svara að það sem af er ári 2008 hafa samtals 4.200 útlendingar lokið námskeiðum í íslensku á vegum fræðsluaðila sem notið hafa til þess styrkja frá menntamálaráðuneyti en upphaflega var sótt um styrki til að kenna 5.400 einstaklingum. Af þessu sést að nokkurt brottfall er í þessari kennslu.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hvort fyrir liggi spá um það hvort aðsókn að námskeiðum í íslensku muni dragast saman miðað við þær atvinnuhorfur sem nú ríkja. Nákvæm spá um það hvort aðsókn að námskeiðum í íslensku muni dragast saman hefur ekki verið gerð enda nokkuð erfitt að meta slíkt við núverandi aðstæður. Hins vegar má fastlega búast við að eftirspurn eftir námskeiðum í íslensku fyrir útlendinga muni dragast saman á næsta ári vegna þess að atvinnuhorfur fara versnandi og eins og við vitum verður væntanlega mikið atvinnuleysi hér á landi á árinu 2009.

Í þriðja lagi er spurt hvort ráðist verði í gerð framhaldsnámskrár fyrir námskeið umfram þær 225 stundir sem skilgreindar eru í námskrá fyrir grunnnám í íslensku fyrir útlendinga. Já, vinna við slíka framhaldsnámskrá er þegar hafin. Þann 23. september sl. var undirritaður samningur milli menntamálaráðuneytis og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um gerð framhaldsnámskrár í íslensku fyrir einstaklinga af erlendum uppruna. Námskráin miðar að því að gera fólki kleift að öðlast grundvallarfærni í málinu og geta átt samskipti við vinnufélaga, almenning og stjórnvöld á íslensku. Færnimarkmið í námskránni skulu skilgreind út frá færnistigi B2 í hinum svokallaða evrópska viðmiðunaramma og almennt viðmið um lengd námskeiðs er um 300 klukkustundir eða 40 mínútur. Verklok eru áætluð 30. apríl 2009.

Í fjórða lagi spyr hv. þingmaður hvort auglýstir hafi verið styrkir til námsefnisgerðar í íslensku fyrir útlendinga líkt og verkefnisstjórn í íslensku fyrir útlendinga lagði til að gert yrði. Styrkir til námsefnisgerðar hafa ekki verið auglýstir en með fyrrgreindum samningi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var henni falið að leita tilboða og semja um gerð eða endurskoðun námsefnis í grunnnámi samkvæmt námskrá ráðuneytisins. Enn fremur var henni falið að semja um útgáfu, dreifingu og höfundarrétt þess efnis og skal stefnt að verklokum haustið 2009. Þá var fræðslumiðstöðinni falið að auglýsa styrki til frekari námsefnisgerðar, fara yfir umsóknir og gera tillögur til ráðuneytisins um úthlutun styrkja. Stefnt er að því að úthlutun geti orðið um miðjan janúar næstkomandi hvað þetta atriði varðar.

Í fimmta lagi spyr hv. þm. Katrín Jakobsdóttir að því hvort viðhorf útlendinga til kennslu og námsefnis í íslenskunámskeiðum hafi verið könnuð. Nei, viðhorf þeirra hafa ekki verið könnuð af ráðuneytinu en þó er vitað að flestir fræðsluaðilar kanna með óformlegum hætti viðhorf nemenda sinna til kennslunnar að námskeiðum loknum. Þetta er einn af þeim þáttum sem ráðuneytið mun kanna með skipulegum hætti næsta ár. Stefnt er að því að niðurstöður slíkrar könnunar geti legið fyrir síðari hluta árs 2009. Þetta er í samræmi við þær áherslur sem við höfum verið að reyna að setja inn í kerfið og þetta á náttúrlega við þennan hluta skólakerfisins líka, þ.e. að við getum fylgt eftir ákveðnum gæðum, fylgt eftir ákveðnu eftirliti til að gæði námskeiðanna séu tryggð með þeim hætti að þeir sem eftir þeim sækjast fái raunverulega það sem þeir sækjast eftir, í þessu tilviki góða íslenskukennslu.

Í sjötta lagi spyr hv. þingmaður hvort haldin hafi verið endurmenntunarnámskeið fyrir kennara sem kennt hafa útlendingum íslensku eins og lagt er til í skýrslu verkefnisstjórnar. Já, þessi námskeið eru hafin. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur veg og vanda af námskeiðahaldi fyrir starfandi kennara og var eitt slíkt haldið í Reykjavík í október sl. Fyrirhugað er að halda annað námskeið í Reykjavík í byrjun desember. Í framhaldinu verður svo könnuð þörfin fyrir hliðstæð námskeið úti á landi og ráðist í frekara námskeiðahald eftir áramót þegar í ljós kemur hvernig heppilegast er að haga slíkum námskeiðum. Stefnt er að því að námskeið verði síðan reglulega í boði fyrir kennara sem liður í stöðugum umbótum og auknum gæðum í íslenskukennslu fyrir útlendinga.