136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

íslenskukennsla fyrir útlendinga.

150. mál
[15:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er ljóst að mikil aðsókn hefur verið að þessum námskeiðum þó að færri hafi lokið þeim en sótt var um styrki fyrir, 4.200 útlendingar eru auðvitað há tala.

Ráðuneytið hefur greinilega farið þá leið að semja við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um námsefnisgerð, útgáfu og annað, þ.e. að Fræðslumiðstöðin hafi yfirumsjón með því ferli öllu. Ég velti fyrir mér þessu fyrirkomulagi, af hverju sú leið er valin, ég velti því fyrir mér hvernig fyrirkomulagið verður, hvort ætlunin er að Fræðslumiðstöðin muni þá bjóða út gerð námsefnis eða gera samning við einstök forlög eða eitthvað slíkt. Ég velti því fyrir mér hvernig ferillinn verður í þessari námsefnisgerð og hvernig tryggt verður að gæðum verði haldið uppi. Hver mun hafa eftirlit með því af hálfu ráðuneytis eða er það ráðuneytið sem á að hafa eftirlit með því hvernig námsefni mun uppfylla þá staðla sem um það eru settir í námskrá?

Ég hef heyrt þá gagnrýni að gallinn við þau endurmenntunarnámskeið sem hafa verið haldin, sem mér skilst reyndar að séu góð og séu kennurum að kostnaðarlausu eins og sagt er, sé sá að kennarar, sem eru langflestir verktakar í þessum geira, þurfi að taka það af sínum tíma að mæta á námskeiðin. Bent hefur verið á að það ætti að vera hluti af kennslu þeirra að fá greitt fyrir að sækja endurmenntunarnámskeið í íslenskukennslu. Spurningin er líka hvort ráðherra telji ástæðu til að styrkja utanumhald um þá sem taka að sér íslenskukennslu fyrir útlendinga, að þeir hafi meira batterí í kringum sig og sé t.d. gert auðveldara að sækja endurmenntunarnámskeið.