136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

íslenskukennsla fyrir útlendinga.

150. mál
[15:18]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Kjarninn í einföldu svari við öllu þessu er sá að við viljum styrkja endurmenntun á öllum sviðum og í dag var lagt fram frumvarp um fullorðinsfræðslu.

Varðandi það atriði sem hv. þingmaður kom inn á, þ.e. hvort kennarar eigi að taka hluta af tíma sínum í að fara í endurmenntun, þá snertir það kjarasamninga kennara. Ég held að einnig væri hægt að taka tillit til þess í kjarasamningunum og í samningum ráðuneytisins við viðkomandi skóla.

Ég get tekið undir það, og geri það heils hugar, að við þurfum að efla símenntun, við þurfum að efla endurmenntun hvort sem það er á sviði íslensku eða annarra þátta. Íslenskan er okkur mikilvæg. Síðast í gær ræddum við hv. þingmaður íslenska málstefnu þar sem við drógum sérstaklega fram hlut íslenskunnar í skólakerfinu hvað varðar íslenskukennara í skólakerfinu, hlutfall íslenskukennslu í grunnskólanum o.s.frv. og við vorum sammála um það að þá þætti verðum við að styrkja. Það sama gildir á þessu sviði hvort sem það er fyrir útlendinga eða Íslendinga.

Ýmsir möguleikar eru fram undan. Ég held að á síðustu árum, og sérstaklega á síðasta ári, höfum við tekið gríðarlegum framförum í þjónustu við útlendinga sem vilja vera hér heima. Íslenskan er lykillinn að svo mörgu. Hún er lykillinn að því að útlendingar geti aðlagast íslensku samfélagi, að fordómar minnki, umburðarlyndi verði meira í samfélaginu og því ber stjórnvöldum, hinu opinbera hvort sem það er ríki eða sveitarfélögum, að stuðla að því að boðið verði upp á þannig þjónustu að útlendingar geti nálgast þá færni og kunnáttu sem gott er fyrir þá að búa yfir til að vera fullgildir og virkir þegnar í íslensku þjóðfélagi.