136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

bygging tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar.

182. mál
[15:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um stöðuna í byggingu tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík. Málið á sér þó nokkuð langa forsögu. Ég hygg að báðir þeir hæstv. ráðherrar sem nú sitja í salnum hafi komið að undirbúningi þess í menntamálaráðherratíð sinni. Sú sem hér stendur skrifaði undir samning við hæstv. núverandi menntamálaráðherra um byggingu hússins og margir aðilar hafa komið að því máli. Staðan er hins vegar sú að eftir hið stóra og mikla bankahrun á Íslandi er sá aðili sem tók að sér framkvæmd verksins í umboði Reykjavíkurborgar og ríkisins, fyrirtækið Portus, kominn í þrot. Við erum því aftur komin með málið í fangið, þ.e. ríkisvaldið og Reykjavíkurborg, og spurning um framhaldið.

Ég tel verkefnið gríðarlega mikilvægt fyrir uppbyggingu miðborgarinnar og líka gríðarlega mikilvægt fyrir menningarlíf landsins alls og ferðaþjónustuna. Mig langar því að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um stöðuna hvað varðar byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar við Austurhöfn og hvernig hún sér fyrir sér framhald verkefnisins nú þegar framkvæmdaaðilar eru komnir í þrot.