136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

bygging tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar.

182. mál
[15:29]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Já, efla mannlíf og menningu, ekki bara hér í Reykjavík heldur fyrir landið allt, það er alveg hárrétt. Við verðum líka að átta okkur á því að saga tónlistar- og ráðstefnuhússins er löng. Það eru um þrír áratugir frá því að fólk fór að berjast fyrir uppbyggingu þessa menningarhúss. Ég teldi arfavitlaust ef við færum að slökkva á öllum framkvæmdum við það núna, það væri mikil skammsýni, en við þurfum að finna lausnir. Þetta er fjárfrekt og á síðustu vikum höfum við reynt að miða við að skuldbindingar okkar haldi, þ.e. greiðslur. Ríki og borg hefji ekki greiðslur sínar fyrr en árið 2010 þegar húsinu er þá lokið en við verðum að finna aðrar lausnir. Það er hárrétt, sem hv. þingmaður kom inn á, að virði lóðanna sem liggja að húsinu mun vaxa mjög þegar við höfum lokið byggingu þess. Andvirði þeirra lóða mun aukast mjög og í þeim felast mikil verðmæti.

Stóra málið er að sjálfsögðu það að við verðum að halda áfram uppbyggingu vegna þess að þetta er mannaflsfrek framkvæmd. Við stuðlum að því að halda uppi atvinnu. Atvinnuleysið árið 2009 og fram á árið 2010 verður meira en nokkurn tímann fyrr í íslenskri sögu. Það væri ábyrgðarhluti af okkur, ríkisstjórninni, að fara að stoppa þessa framkvæmd alveg eins og það væri ábyrgðarhluti af borginni að gera það. Það er ætlunin að vinna að lausn þessara mála um leið og við byggjum upp til framtíðar hús fyrir tónlistina og höll fyrir fólkið í landinu.

Það skiptir miklu máli að við höldum þessu áfram og ég vil sérstaklega taka það fram að samstarf mitt við þá fimm borgarstjóra sem ég hef átt samskipti við á ráðherraferli mínum hafa öll verið góð, með eindæmum góð, um þetta verkefni. Allir borgarstjórar hafa sýnt mikinn metnað varðandi það að byggja upp tónlistar- og ráðstefnuhús fyrir menninguna og mannlífið í landinu, eða voru þeir sex? (SVÓ: Við vorum sex.)