136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

tímabundnar ráðningar í utanríkisráðuneytinu.

[10:41]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég lagði nýlega fram fyrirspurn til forsætisráðherra og spurði m.a. um tímabundnar ráðningar í ráðuneytunum. Mér bárust svör ráðherra sem voru athyglisverð. Þar kom m.a. fram að það er gríðarlegur fjöldi, vil ég segja, sem hefur fengið tímabundnar ráðningar í ráðuneytunum. Ef ég fer aðeins yfir þetta eru það fimm í forsætisráðuneyti, þrír í dómsmálaráðuneyti, sex í félags- og tryggingamálaráðuneyti, sjö í fjármálaráðuneyti, tveir í heilbrigðisráðuneyti, tveir í iðnaðarráðuneyti, sjö í menntamálaráðuneyti, enginn í samgönguráðuneyti, enginn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, enginn í umhverfisráðuneyti og tveir í viðskiptaráðuneyti.

Það sem var kannski athyglisverðast við þessi svör var að ekkert svar barst um það hvernig staðan er í utanríkisráðuneytinu. Þess vegna fæ ég tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvers vegna utanríkisráðuneytið gefur engin svör um tímabundnar ráðningar, hvort utanríkisráðuneytið er ekki enn þá hluti af Stjórnarráðinu og íslenskri stjórnsýslu.

Svo vil ég taka það fram, hæstv. forseti, að reglur sem gilda um auglýsingar eru mjög strangar. Þetta eru reglur fjármálaráðuneytisins um auglýsingar og þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki er skylt að auglýsa“ — sem sagt, reglan er að auglýsa — „störf í eftirfarandi tilvikum:

1. Störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur.

2. Störf við afleysingar, svo sem vegna orlofs, veikinda, barnsburðarleyfis [o.s.frv.].

3. Störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði.“

Miðað við öll stóru orðin hjá formanni Samfylkingarinnar fyrr á árum í ýmsum Borgarnesræðum og fleiri ræðum um gagnsæjar leikreglur lýðræðisins og að umgangast beri vald af virðingu og þar fram eftir götunum (Forseti hringir.) spyr ég hæstv. utanríkisráðherra um skýringar.