136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

tímabundnar ráðningar í utanríkisráðuneytinu.

[10:45]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé kannski dæmigert um samstarfið eða samstarfsleysið innan ríkisstjórnarinnar, að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki einu sinni fengið upplýsingar um að henni bæri að svara þessari fyrirspurn hæstv. forsætisráðherra. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra, því hún á væntanlega eftir að koma hér upp aftur, hvað henni finnist um þessar gríðarlegu tímabundnu ráðningar sem ástundaðar eru innan Stjórnarráðsins og m.a. í ráðuneytum flokksmanna hennar því þetta kostar mikla peninga. Þarna er um að ræða að starfsfólk ráðuneytanna er ekki notað heldur er annað fólk ráðið inn til að vinna vinnuna. Þetta er gagnrýnivert og ég bið hæstv. ráðherra að gefa mér skýringar á því hvers vegna svona margt fólk er ráðið tímabundið.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég svo lýsa ánægju með að hæstv. ráðherra les bloggsíðuna mína. [Hlátrasköll í þingsal.]