136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

tímabundnar ráðningar í utanríkisráðuneytinu.

[10:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Já, ég las bloggsíðuna í þetta sinn hjá þingmanninum og hef svo sem gert það áður. Ég reyni að fylgjast með þeim skoðunum sem uppi eru hjá stjórnarandstöðunni og tel að það skipti nokkru máli að fylgjast ekki bara því sem sagt er í þingsölum heldur líka því sem fólk skrifar í greinum eða á bloggsíðum.

En varðandi þessar tilteknu upplýsingar þá mun ég sjá til þess að þær berist og það verður þá að prenta upp þetta skjal þannig að utanríkisráðuneytið sé með inni í því.

Hvað varðar tímabundnar ráðningar sem hv. þingmaður biður um skýringar á þá finnst mér mjög erfitt að gefa eitthvert algilt svar um það. Tímabundin ráðning getur komið í veg fyrir að sett sé upp ný staða í ráðuneytinu sem getur verið erfiðara að losna við aftur og hún getur líka sparað aðkeypta vinnu. Það er því ekki hægt að gefa neitt algilt svar við því hvort rétt sé að beita tímabundnum ráðningum eða fara frekar í aðkeypta vinnu eða að setja upp stöður sem eru auglýstar. Við tilteknar aðstæður má haga hlutum með þessum hætti. Ég hef auðvitað aðstöðu til að skoða hvernig þingmaðurinn, þegar hún var ráðherra, hagaði þessum hlutum í ráðuneyti sínu. (VS: Þar var sko allt á hreinu.) [Hlátrasköll í þingsal.]