136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skipun sérstaks saksóknara og álag á dómstóla.

[10:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Varðandi fyrra atriðið þá verður þessi staða auglýst með tveggja vikna umsóknarfresti og síðan verður farið yfir umsóknir. Ég hafði hugsað mér að óska eftir því við allsherjarnefnd að það yrði einn fulltrúi frá hverjum flokki sem kæmi til samráðs við ráðuneytið þegar umsóknir lægju fyrir og við gætum ráðið ráðum okkar um það mál þegar umsóknarfrestur er liðinn og menn sjá hverjir sækja um. Það var mín hugmynd og ég vona að allsherjarnefnd fallist á að þannig verði staðið að málum.

Varðandi dómstólana þá er lögbundinn fjöldi dómara í landinu, héraðsdómarar eru 38 samkvæmt lögum og við vitum að hæstaréttardómarar eru 9 eins og lög mæla fyrir um. Það hafa komið fram hugmyndir um fjölgun héraðsdómara og ég flutti á sínum tíma frumvarp um það. Því var ekki tekið þannig í þinginu að það næði fram að ganga. Einnig hafa verið hugmyndir um að veita fulltrúum dómara aukið vald til að taka á málum og koma að málum en það verður ekki heldur gert nema með lagabreytingu. Ráðuneytið getur því í sjálfu sér ekkert annað gert en taka mið af því hvernig þróunin er og síðan komið með hugmyndir fyrir þingið um fjölgun dómara eða aukið vald dómarafulltrúa. Ég boðaði það og hef sagt að það kunni að koma að því að efla þurfi dómstólana í ljósi þess sem hér hefur gerst en fyrsta skrefið af minni hálfu var að leggja fram frumvarpið um sérstakan saksóknara sem var samþykkt í gær.